Samstarf

Vísir setur notendamet á íslenskum fréttamiðli

Kolbeinn Tumi Daðason
Rúmlega 684 þúsund notendur sóttu Vísi heim í vikunni sem leið. Aldrei hafa verið fleiri notendur á íslenskum fréttamiðli en fyrra metið, rúmlega 667 þúsund notendur, átti Mbl.is frá því eldsumbrotin í Holuhrauni stóðu sem hæst í ágúst í fyrra. Miðað er við Samræmda vefmælingu Modernus.

Hinn mikla fjölda lesenda á Vísi þessa vikuna má meðal annars rekja til mikils áhuga erlendra lesenda á fylgi Pírata í skoðanakönnun Fréttablaðsins. Sömuleiðis vöktu fréttir af veðrinu hér heima mikla athygli líkt og á öðrum íslenskum vefmiðlum. 

„Visir.is náði efsta sæti á veflistanum í þessari viku og halda því tveir stærstu vefirnir (mbl.is og visir.is) áfram að skiptast á sætum nú í byrjun þessa árs,“ segir í umfjöllun á vef Modernus. Þar kennir ýmissa grasa en einn af hástökkvurum vikunnar er vefur Ríkisskattstjóra enda landsmenn í óða önn að skila framtölum sínum.

Ritstjórn Vísis þakkar lesendum sínum kærlega fyrir heimsóknirnar undanfarnar vikur. Við tökum fagnandi við ábendingum, innsendum greinum og athugasemdum á ritstjórnarpóstinum okkar (ritstjorn@visir.is) og minnum á að nýjustu og helstu fréttir okkar eru birtar jafnóðum á Facebook-síðu Vísis. Erlendir lesendur geta sömuleiðis fylgst með fréttum á enskri útgáfu Facebook-síðu Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×