Fótbolti

Þrenna, tvö rauð og tvö víti þegar Barcelona fór á toppinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi að skora í leiknum í dag.
Messi að skora í leiknum í dag. vísir/afp
Argentínski snillingurinn, Lionel Messi, var í stuði fyrir Barcelona sem vann auðveldan 6-1 sigur á Rayo Vallecano í spænsku úrvalsdeildinni í dag. Með sigrinum fór Barcelona á toppinn.

Luis Suarez kom Börsungum yfir eftir sex mínútna leik og þannig var staðan í hálfleik. Gerard Pique bætti við marki fjórum mínútum eftir hlé.

Tito, varnarmaður Rayo, fékk sitt annað gula spjald á 55. mínútu og þar með rautt. Þá var röðin komin að Lionel Messi. Hann skoraði þrjú mörk á ellefu mínútna kafla, það fyrsta á 57. úr víti og það síðasta á 68. mínútu eftir undirbúning frá Pedro.

Þetta var þrenna númer hjá 32 hjá Messi í öllum keppnum, en hann hefur skorað 40 mörk eða meira fyrir Barcelona síðustu sex tímabil. Ágætis tölfræði.

Daniel Alves var svo vikið af velli tíu mínútum fyrir leikslok og dæmd var vítaspyrna. Alberto Bueno fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Suarez, markakóngurinn á Englandi frá síðustu leiktíð, bætti við marki í uppbótartíma og lokatölur 6-1 stórsigur Börsunga.

Með sigrinum er Barcelona komið á topp spænsku úrvalsdeildarinnar. Þeir eru með 62 stig, en Real Madrid er í öðru sæti með 61 stig eftir tapið gegn Athletic Bilbao í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×