Enski boltinn

Fyrrum lögreglumaður ber af sér sök

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Myndbandsupptaka frá umræddu atviki hefur vakið mikla athygli.
Myndbandsupptaka frá umræddu atviki hefur vakið mikla athygli. Vísir/AFP
Richard Barklie, fyrrum lögreglumaður frá Norður-Írlandi, segist ekki vera kynþáttahatari en hann var einn af þeim mönnum sem var eftirlýstur af breskum yfirvöldum í tengslum við atvik í neðanjarðarlest í París í síðustu viku.

Þeldökkum manni var þá meinaður aðgangur að lest sem var þétt setin af stuðningsmönnum Chelsea eftir viðureign liðsins gegn PSG í Meistaradeild Evrópu á þriðjudagskvöld.

Atvikið náðist á myndband og hafa fimm stuðningsmenn þegar verið settir í bann frá Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, vegna málsins. Þeir eiga yfir höfði sér ævilangt bann frá leikjum liðsins og þunga refsingu í franska dómskerfinu verði þeir handteknir og færðir fyrir rétt.

Barklie segist þó ekki tilheyra þessum hópi og að hann hafi ekki veist að manninum. Lögmaður hans sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fullu samstarfi við lögreglu er heitið.

Barklie hefur þar að auki starfað lengi með mannréttindarsamtökum í Belfast sem og í Afríku og Indlandi. Hann hefur verið ársmiðahafi hjá Chelsea í meira en 20 ár og var einn á ferð á umræddum leik í París. Hann þekkir ekki til þeirra stuðningsmanna sem veittust að manninum.

„Hann mun segja lögreglu sína hlið málsins sem varpar ljósi á kringumstæður eins og þær voru á þessum tíma,“ sagði í yfirlýsingunni.


Tengdar fréttir

Stuðningsmenn Chelsea hentu manni út úr lest í París

Stuðningsmenn Chelsea urðu sér og félagi sínu til skammar í gærkvöldi þegar þeir voru á ferð með lest í miðborg París en Chelsea gerði 1-1 jafntefli við Paris Saint-Germain í gærkvöldi í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×