Enski boltinn

Holugröftur Arsenal í sextán liða úrslitunum síðustu ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olivier Giroud svekkir sig í leiknum í gær.
Olivier Giroud svekkir sig í leiknum í gær. Vísir/Getty
Arsenal-liðið er enn á ný komið í vond mál eftir fyrri leik sinn í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fótbolta en liðið tapaði 1-3 fyrir franska liðinu Mónakó á heimavelli í gærkvöldi.

Mónakó-liðið skoraði aðeins fjögur mörk í sex leikjum sínum í riðlakeppninni en tókst engu að síðust að skora þrjú mörk á Emirates-leikvanginum og stíga með því stórt skref í átt að átta liða úrslitunum.

Arsenal hefur þar með haldið við hefð sína að grafa sér stóra holu í fyrri leik sínum í sextán liða úrslitunum en þetta er fjórða árið í röð sem liðið tapar með tveggja marka mun eða meira í fyrri leik sínum í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar.

Undanfarin fjögur ár er markatala Arsenal í fyrri leik sextán liða úrslitanna 2-12 eða tíu mörk í mínus.

Markatala Arsenal í seinni leiknum er 6-1 liðinu í hag en það hefur ekki dugað liðinu til að komast í átta liða úrslitin þangað sem lærisveinar Arsene Wenger hafa ekki verið síðan 2010.

Fyrri leikir Arsenal í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar síðustu ár:

2014-15

Arsenal - Monakó 1-3

2013-14

Arsenal - Bayern München 0-2

2012-13

Arsenal  - Bayern München 1-3

2011-12

AC Milan - Arsenal 4-0

Samtals 2011-15

Arsenal - mótherjar 2-12 (-10)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×