Fótbolti

Ödegaard gæti fengið tækifæri með aðalliði Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Svo gæti farið að Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, gefi norska ungstirninu Martin Ödegaard tækifæri með aðalliði félagsins mun fyrr en áætlað var.

Ödegaard gekk nýverið í raðir Real Madrid en þessi sextán ára táningur hefur þótt standa sig vel á æfingum með aðalliði félagsins.

Í fyrstu var áætlað að hann myndi skipta tíma sínum á milli æfinga með aðalliðinu og varaliði félagsins en fjarvera þeirra Sami Khedira og Luka Modric hefur gert það að verkum að hann hefur meira æft með aðalliðinu gert var ráð fyrir.

Þá hefur tækifærum Asier Illaramendi fækkað og Lucas Silva þarf meiri tíma til að koma sér af stað eftir að hann gekk í raðir Real Madrid frá Cruzeiro í síðasta mánuði.

Spænska blaðið Marca heldur því fram að Ödegaard gæti fengið tækifæri í leikmannahópi Real Madrid gegn Deportivo um helgina eða leik liðsins gegn Schalke í Meistaradeild Evrópu í næstu viku.

Félagið hefur þegar skráð Ödegaard í leikmannahóp félagsins fyrir Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×