Íslenski boltinn

Valskonur geta unnið þrítugasta leikinn í röð í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen í leik á móti Fylki síðasta sumar.
Elín Metta Jensen í leik á móti Fylki síðasta sumar. Vísir/Daníel
Undanúrslitaleikir Reykjavíkurmóts kvenna í fótbolta fara báðir fram í Egilshöllinni í kvöld og þar geta Reykjavíkurmeistarar síðustu sjö ára unnið tímamótasigur.

Fylkir og KR mætast í fyrri leiknum klukkan 18.45 og klukkan 20.45 mætast síðan Valur og Þróttur. Liðin sem vinna leikina mætast í úrslitaleiknum á sama stað á mánudaginn kemur.

Valskonur hafa unnið Reykjavíkurmeistaratitil kvenna í sjö ár í röð eða frá og með árinu 2008.

Það er ekki nóg með að Valsliðið hafi unnið titilinn í sjö síðustu skipti heldur hefur Hlíðarendaliðið einnig unnið alla leiki sína frá 2009.

Valskonur eru nú komnar með 29 sigra í röð í Reykjavíkurmótinu eftir þrjá sigra í þremur leikjum í riðlakeppninni.

Síðast unnu þær ekki leik í Reykjavíkurmótinu 5. febrúar 2009 þegar liðið varð að sætta sig við 1-1 jafntefli við Fylki.

Valsliðið hefur ennfremur ekki tapað í síðustu 38 leikjum sínum í Reykjavíkurmótinu eða síðan að þær töpuðu 4-3 á móti KR 23. febrúar 2007.

Elín Metta Jensen hefur skorað 4 af 8 mörkum Valsliðsins í Reykjavíkurmótinu í ár og er langmarkahæsti leikmaður liðsins í sigurgöngunni.

Elín Metta hefur spilað 19 af þessum 29 leikjum og skorað í þeim 37 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×