Enski boltinn

Bjarni Þór Viðarsson skrifaði undir hjá FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Þór Viðarsson við undirritunina í dag.
Bjarni Þór Viðarsson við undirritunina í dag. Vísir/Valli
FH-ingar héldu blaðamannafund í dag þar sem Bjarni Þór Viðarsson skrifaði undir samning við félagið og mun Bjarni Þór því spila með Davíð Þór Viðarssyni, bróður sínum, í fyrsta sinn í Pepsi-deildinni næsta sumar.

Bjarni Þór var síðast í herbúðum danska liðsins Silkeborg en samningi hans var rift á dögunum og hefur Bjarni Þór ákveðið að koma heima og spila með uppeldisfélagi sínu eftir tíu ára dvöl erlendis.

Bjarni Þór er 26 ára miðjumaður og fór fyrst út til Everton árið 2005. Hann var fyrirliði 21 árs landsliðsins sem komst í úrslitakeppni EM sumarið 2011 en aðeins einn leikmaður, Hólmar Örn Eyjólfsson, hefur spilað fleiri landsleiki fyrir 21 árs landslið Íslands.

Bjarni Þór skrifaði undir þriggja ára samning við FH-liðið en lítið hefur gengið hjá honum í atvinnumennskunni undanfarin ár og næsta sumar ætti að vera kjörið tækifæri fyrir hann að koma knattspyrnuferlinum aftur á réttan kjöl.

Bjarni Þór spilaði aldrei með FH í úrvalsdeildinni en hann var bara sextán ára gamall þegar hann fór út. Síðan þá hefur hann spilað með liðum í Englandi, Belgíu og Danmörku.

Þetta er góður liðsstyrkur fyrir FH sem missti nýverið Finn Orra Margeirsson til norska liðsins Lilleström.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×