Innlent

Tíðinda að vænta vegna skoðunar á samskiptum Sigríðar Bjarkar og Gísla Freys

Birgir Olgeirsson skrifar
Gísli Freyr Valdórsson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
Gísli Freyr Valdórsson og Sigríður Björk Guðjónsdóttir.
Persónuvernd er á lokastigum skoðunar á samskiptum Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanni innaríkisráðherra, og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum.

Að sögn Þórðar Sveinssonar, forstöðumanns lögfræðisviðs Persónuverndar, er von á niðurstöðu frá Persónuvernd vegna málsins innan tíðar. Persónuvernd hafði óskað eftir skýringum á sendingu Sigríðar Bjarkar á greinargerð um málefni hælisleitanda sem send var til Gísla Freys.

Sigríður segist hafa sent upplýsingarnar til Gísla með tölvupósti að morgni 20. nóvember árið 2013 en sama dag birtust upplýsingar í fjölmiðlum um málefni hælisleitandans Tony Omos sem Gísli Freyr var síðar dæmdur fyrir að leka úr innanríkisráðuneytinu.

Sigríður Björk hafði tjáð fjölmiðlum fyrr í vikunni að hún myndi afhenda Persónuvernd þennan tölvupóst ásamt öðrum gögnum er varða skoðun málsins í dag en þegar Vísir hafði samband við Persónuvernd fengust engar upplýsingar um það hvort afhendingin hefði átt sér stað. „Við höfum ákveðið að tjá okkur ekki um málið við fjölmiðla að sinni heldur leyfa öllu að koma fram um samskipti við alla þá sem að málinu koma í niðurstöðunni þar sem það verður allt saman rakið,“ segir Þórður Sveinsson.

Hvorki náðist í Gísla Frey Valdórsson né Sigríði Björk Guðjónsdóttur við vinnslu þessarar fréttar.


Tengdar fréttir

Allt veltur á innihaldi greinargerðar Sigríðar

Innihald greinargerðar sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi aðstoðarmanni innanríkisráðherra í fyrra ræður hvort lögreglustjórinn hafi mátt senda skjalið segir lektor við Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×