Íslenski boltinn

Íslandsmeistarar Stjörnunnar missa miðvörðinn sinn til Svíþjóðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Rauschenberg fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Stjörnunni.
Martin Rauschenberg fagnar Íslandsmeistaratitlinum með Stjörnunni. Vísir/Andri Marinó
Danski miðvörðurinn Martin Rauschenberg mun ekki taka þátt í titilvörn Stjörnunnar í Pepsi-deildinni því þessi 23 ára strákur hefur gert samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Gefle IF. Félagið staðfestir þetta á heimasíðu sinni.

Martin Rauschenberg var búinn að vera í tvö sumur hjá Stjörnunni en gerir nú þriggja ára samning við sænska liðið sem endaði í 14. sæti á síðustu leiktíð.

„Hann getur spilað í báðum miðvarðarstöðunum og getur notað bæði vinstri og hægri fót í uppspilinu. Hann hefur líka frábæra leiðtogahæfileika þrátt fyrir ungan aldur," sagði Hasse Berggren, íþróttastjóri Gefle IF, í viðtali á heimasíðu félagsins.

Stjörnuliðið varð í þriðja sætið fyrra ár Martin Rauschenberg hjá liðinu og vann svo titilinn síðasta sumar. Bættur varnarleikur liðsins átti mikinn þátt í betri gengi Garðbæinga.

Martin Rauschenberg varð í 3. sæti yfir bestu varnarmenn Pepsi-deildarinnar 2014 samkvæmt einkunnagjöf Vísis og Fréttablaðsins en hann var með 6,19 í meðaleinkunn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×