Körfubolti

Ekki vandræðalaust að koma bikarnum til Jóns Arnórs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Arnór Stefánsson með bikarinn sem skilaði sér betur fer þrátt fyrir efasemdir bresks tollvarðar.
Jón Arnór Stefánsson með bikarinn sem skilaði sér betur fer þrátt fyrir efasemdir bresks tollvarðar. Mynd/Ragnar Santos
Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, fékk þann heiður að afhenda Jóni Arnóri Stefánssyni annan bikarinn sem hann hlaut sem Íþróttamaður ársins 2014. Jón Arnór átti ekki heimangengt á hóf Samtaka íþróttafréttamanna og ÍSÍ sem fram fór í gærkvöldi vegna anna sem atvinnumaður hjá Unicaja Malaga á Spáni.

Rakel greinir frá því á Facebook-síðu sinni að tvisvar sinnum hafi þurft að gegnumlýsa bikarinn á Gatwick-flugvelli í London á leiðinni til Malaga. Breskur tollvörður hafi stoppað Rakel á flugvellinum greinilega velt mikið fyrir sér úr hverju gripurinn væri gerður.

„Lava??? Really, a trophy made of lava?“ hefur Rakel eftir tollverðinum sem hleypti Rakel og bikarnum að lokum áfram sína leið.

Ingigerður með stóra bikarinn á hófinu í gærkvöldi.Vísir/Daníel
Bikarinn er sá minni af tveimur sem Íþróttamanni ársins skotnast árlega. Um er að ræða eignarbikar en sá stóri er farandbikar til eins árs í senn. Á heimasíðu Samtaka íþróttafréttamanna kemur fram að hraunið í bikarnum komi frá Þingvöllum.

Fróðlegt hefði verið að sjá hvernig breski tollvörðuinn hefði brugðist við hefði Rakel reynt að koma stóra bikarnum til Jóns Arnórs. Ingigerður Jónsdóttir, móðir Jóns Arnórs, tók við þeim stóra fyrir hönd sonar síns í Gullhömrum í gær.


Tengdar fréttir

Fyrstu bræðurnir í hópi Íþróttamanna ársins

Jón Arnór Stefánsson fylgdi í fótspor bróður síns Ólafs Stefánssonar þegar hann var kosinn Íþróttamaður ársins í kvöld en Jón Arnór varð efstur í í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×