Körfubolti

Jón Arnór ætlar að geyma góð ár fyrir íslensku deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson í búningi KR.
Jón Arnór Stefánsson í búningi KR. Vísir/Valli
Jón Arnór Stefánsson var kosinn Íþróttamaður ársins í gærkvöldi en hann spilar með spænska stórliðinu Unicaja Malaga.  

Það var samt að heyra á viðtalinu, sem sjónvarpskonan Rakel Þorbergsdóttir tók við hann og sýnt var í hófi Samtaka Íþróttafréttamanna, að kappinn sé farinn að hugsa heim til Íslands.

„Ég gæti alveg spilað í nokkur ár í viðbót og líkamlega er ég í góðu ástandi," sagði Jón Arnór.

„Ég borða vel og hugsa vel um mig. Ég gæti því spilað í einhver ár í viðbót en ég hugsa að ég geymi þessi bestu ár sem eftir eru fyrir íslensku deildina. Ég er með nokkur markmið þar sem ég vil klára áður en ég hætti. Svo vil ég bara að fara að snúa mér að einhverju öðru," sagði Jón Arnór.

„Ég vil bara að fara komast heim til Íslands, faðma fjölskylduna og vini og koma krökkunum fyrir í íslenskum skóla. Það fer því að styttast í annan endann hjá þessu hjá mér. Hversu mörg ár ég á eftir get ég ekki sagt en það fer klárlega að styttast í annan endann á þessum ferli," sagði Jón Arnór.

Rakel spurði Jón Arnór um hvort að það yrði slagur heima um að fá hann eða hvort bara eitt félag kæmi til greina.

„Ég held að ég fari aftur í KR. Það eru 99,9 prósent líkur á því," sagði Jón Arnór að lokum.


Tengdar fréttir

Hannes: Jón Arnór einn besti íþróttamaður sem Ísland hefur alið

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssamband Íslands, gat brosað út að eyrum í hófi Samtaka íþróttafréttamanna í gærkvöldi þegar Jón Arnór Stefánsson var kosinn Íþróttamaður ársins 2014 og karlalandsliðið í körfubolta var valið lið ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×