Fótbolti

Messi, Neymar og Suárez skoruðu allir í stórsigri í bikarnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar og Lionel Messi skoruðu báðir í kvöld.
Neymar og Lionel Messi skoruðu báðir í kvöld. vísir/getty
Barcelona fór létt með að pakka Elche saman, 5-0, í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum spænska Konungsbikarsins í fótbolta í kvöld, en leikið var á Nývangi í Katalóníu.

Brasilíumaðurinn Neymar braut ísinn fyrir Börsunga á 35. mínútu með fyrsta marki leiksins, en fimm mínútum síðar kom Luis Suárez heimamönnum í 2-0.

Leikurinn var í raun búinn í hálfleik því Lionel Messi kom Barcelona í 3-0 með marki úr vítaspyrnu á 45. mínútu og því öll framlína heimamanna komin á blað.

Í seinni hálfleik bætti bakvörðurinn Jordi Alba við marki fyrir Barcelona á 56. mínútu og fjórum mínútum síðar skoraði Neymar annað mark sitt og fimmta mark Börsunga.

Seinni leikurinn fer fram eftir viku á heimavelli Elche, en þar ætti Luis Enríque, þjálfari Barcelona, að geta hvílt meira og minna allt byrjunarliðið.

Áhuginn fyrir leiknum í Katalóníu í kvöld var ekki mikill, en aðeins 27.000 manns voru mættir á Nývang sem þykja fréttir á þeim bænum. Camp Nou tekur rétt tæplega 100.000 manns í sæti og var því ansi tómlegt á vellinum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×