Skoðun

Betri stjórnarstefna er möguleg

Árni Páll Árnason skrifar
Stjórnarandstaðan hefur sameinast um breytingartillögur við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar til að freista þess að draga úr verstu ágöllum frumvarpsins.

Ríkisstjórnin sýnir í hverju málinu á fætur öðru þann ásetning sinn að vinna í þágu hinna fáu. Ríkisstjórn ríka fólksins hefur reynst fullkomið réttnefni. Það er mikilvægt að þjóðin sjái að önnur stjórnarstefna er möguleg og að samstaða er um hana í stjórnarandstöðunni.

Við leggjum til að fallið verði frá stórauknum álögum á almenning vegna heilbrigðisþjónustu. Ef allt er talið stefnir í að kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðisþjónustu – komugjöld í heilsugæslunni, greiðsluþátttaka hjá sérfræðilæknum, í lyfjum, hjálpartækjum og þjálfun – hækki um nærri 2 milljarða frá því sem var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er ótrúlegt að heyra stjórnarflokkana stæra sig af skattalækkunum á sama tíma og nýr 2 milljarða skattur er með þessum hætti felldur á heimilin í landinu.

Við leggjum líka til að framhaldsskólinn verði áfram opinn fyrir nemendum óháð aldri. Ríkisstjórnin vill loka þessari leið fyrir fólki yfir 25 ára aldri og vísa því á margfalt dýrari einkareknar leiðir. Fólk yfir 25 ára aldri er borgarar eins og aðrir og á sama rétt til að afla sér menntunar og fá að nýta tækifæri, óháð efnahag.

Allt ber að sama brunni í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar: Lögð eru gjöld á allt sem á að vera hluti opinberrar þjónustu. Nýir skattar heita öðrum nöfnum: Hærri kostnaðarhlutdeild sjúklinga, hærri gjöld fyrir aðgang að framhaldsskólamenntun og ný gjöld fyrir að fá að ganga um náttúru Íslands.

Við þessari stefnumörkun þarf að bregðast með því að sýna alvöruvalkost. Við setjum heilbrigðismál og menntamál í forgang og sækjum kjarabætur fyrir lífeyrisþega með auknum framlögum til almannatrygginga. Við viljum verja umsamin réttindi á vinnumarkaði, eins og rétt til atvinnuleysisbóta og bæta úr brýnni þörf fyrir fjárfestingu í innviðum. Þetta er betri stefna og um hana er hægt að byggja víðtæka sátt meðal þjóðarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×