Körfubolti

Helgi Jónas hættur | Þarf að endurskoða líf mitt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Breytt heimsmynd blasir við Helga Jónasi Guðfinnssyni eftir að hafa veikst. Hann þarf að endurskoða líf sitt og passa betur upp á sig í framtíðinni.
Breytt heimsmynd blasir við Helga Jónasi Guðfinnssyni eftir að hafa veikst. Hann þarf að endurskoða líf sitt og passa betur upp á sig í framtíðinni. fréttablaðið/stefán
„Þetta var mjög erfið ákvörðun enda hefur körfuboltinn spilað stóra rullu í mínu lífi,“ segir Helgi Jónas Guðfinnsson, fráfarandi þjálfari Keflavíkur, en hann ákvað að hætta þjálfun liðsins um síðustu helgi.

Hann fann fyrir hjartsláttartruflunum í leik fyrir tveimur vikum og yfirgaf þá völlinn í leikhléi. Það átti eftir að verða hans síðasti leikur sem þjálfari Keflavíkur.

Helgi hefur verið mjög máttlítill síðan hann fann fyrir truflununum en er aðeins að komast á lappir. Hann þarf þó að passa upp á sig.

Má við mjög litlu

„Ég er búinn að vera þokkalegur í einn og hálfan dag núna. Ég má samt við rosalega litlu. Þá fer ég að finna fyrir truflununum á nýjan leik,“ segir Helgi en hann hitti hjartasérfræðing á dögunum.

„Ég fékk góða skoðun hjá lækninum en þetta var viðvörun fyrir mig. Læknirinn sagði að ég réði því hvað ég gerði við þessa viðvörun. Það lá fyrir að ég yrði að fækka við mig verkefnum og þar af hætta að þjálfa Keflavík. Þar með er þessum kafla í mínu lífi lokið. Ég mun aldrei þjálfa körfuboltalið aftur. Ég hef ekki áhuga á því að setja mig í þessa aðstöðu aftur.“

Það tekur á andlega sem líkamlega að vera þjálfari liðs í úrvalsdeild. Starfinu fylgir líka mikil streita og hún er einfaldlega hættuleg fyrir Helga Jónas.

„Það er mikið stress að vera þjálfari og misjafnt hvernig menn höndla stressið. Svo safnast þetta upp eins og hjá mér. Ég verð að vera skynsamur en það er erfitt að yfirgefa sviðið enda svo margt skemmtilegt við körfuna. Það er undirbúningurinn, skipulag og allt í kringum boltann. Það er erfitt að hugsa til þess að ég fái aldrei að taka þátt í því aftur. Þess vegna var ákvörðunin svona erfið. Eftir að hafa rætt þetta vel við konuna mína þá er þetta skynsamlegasta ákvörðunin enda snýst þetta um mína heilsu.“

Fjölnir - Grindavík Páll Axel Vilbergsson Helgi Jónas Guðfinsson körfubolti vetur 2012 Lengjubikar
Þarf að endurskoða lífið

Það hefur einnig verið mikið að gera hjá Helga Jónasi við að byggja upp Metabolic-þjálfunarkerfið sem hefur notið mikillar hylli á Íslandi.

„Ég þarf að minnka við mig þar líka. Ég hef verið að þjálfa, svo er utanumhald og þróunarvinna. Þess utan er verið að reyna að koma þessu á erlendan markað og þá eru oft fundir á nóttunni. Ég þarf að endurskoða margt í lífi mínu. Til að mynda svefn sem er streituþáttur. Ég er lánsamur að hafa lifað heilbrigðu lífi og ef ég væri ekki hraustur hefði kannski farið verr.“

Helgi var frábær leikmaður áður en hann fór út í þjálfun þar sem hann náði einnig framúrskarandi árangri. Körfuboltinn er nánast í blóðinu á honum og því er erfitt fyrir hann að kveðja boltann til frambúðar.

„Nú tek ég mér algjört frí frá boltanum. Fer ekki einu sinni á völlinn á meðan ég er að reyna að ná mér aftur á ról. Það gengur fyrir að ná fullri heilsu núna. Það tekur lengri tíma en ég átti von á. Ég verð því að vera þolinmóður og hlusta á líkamann. Ég hef verið að predika það við fólkið sem ég þjálfa að hlusta á skrokkinn á sér. Nú er komið að mér að hlusta á sjálfan mig.“


Tengdar fréttir

Falur: Settum enga pressu á Helga Jónas

"Siggi er virkilega góður þjálfari og hann var eini maðurinn sem við töluðum við," segir Falur Harðarson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, um þjálfaraskiptin hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×