Menning

Nálgumst Sturlu frá mörgum hliðum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Sturla skrifaði ekki bara fyrir Íslendinga heldur skildu fleiri málið þá og Noregur og Ísland var samhangandi menningarsvæði,“ segir Guðrún Nordal.
"Sturla skrifaði ekki bara fyrir Íslendinga heldur skildu fleiri málið þá og Noregur og Ísland var samhangandi menningarsvæði,“ segir Guðrún Nordal. Fréttablaðið/Pjetur
„Sturla Þórðarson tók virkan þátt í lífinu á sinni tíð og gegndi mörgum hlutverkum um ævina. Hann var rithöfundur og skáld, hann var höfðingi og hann var lögmaður. Það er stór ráðstefna að hefjast í dag um hann og öll hans helstu verk eins og Íslendingasögu í Sturlungu, Hákonarsögu, Sturlubók Landnámu og lögbókina Járnsíðu,“ segir Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar.

Sturla var fæddur 1214 og dó 1284 og var tengdur helstu persónum Sturlungaaldar. „Það sem er svo merkilegt er að Sturla skrifar söguna um Ísland, sem þátttakandi og samtímamaður, hann skrifar líka sögu Noregs svo hans túlkun litar sterkt skoðanir okkar á þessum tíma,“ bendir Guðrún á og segir ætlunina að nálgast Sturlu frá mörgum hliðum.

„Við ætlum að fjalla um sögurnar sem hann skrifaði, konurnar í lífi hans, samtíma hans hér heima og veru hans í Noregi, þar var hann að skrifa ákveðin verk fyrir konunginn, Magnús lagabæti, og konan hans, Helga Þórðardóttir, fór með honum. Sturla skrifaði ekki bara fyrir Íslendinga heldur skildu fleiri málið þá og Noregur og Ísland var samhangandi menningarsvæði.“

Auk Árnastofnunar standa Háskóli Íslands og Óslóarháskóli fyrir ráðstefnunni sem fram fer í Norræna húsinu. Byrjar klukkan 13 í dag og heldur áfram á morgun og laugardag. Guðrún segir fræðimenn frá Noregi, Bretlandi og Bandaríkjunum verða þar auk Íslendinga. „Við erum að reyna að búa til samtal milli íslenskra og erlendra fræðimanna og þannig fáum við víða sýn. Þetta er alþjóðleg ráðstefna og fer fram á ensku.“

Spurð að síðustu hvort hún telji Sturlu hafa skrifað Njálu svarar Guðrún: „Við ætlum ekkert út í þá sálma en Einar Kárason, sem hefur haldið því fram, endar umræðurnar og Þorsteinn frá Hamri les svo ljóð eftir Sturlu í lokin. Þetta verður gaman.“

Guðrún segir alla sem hafa áhuga á verkum Sturlu, lífi og samtíma velkomna meðan húsrúm leyfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.