Menning

Skemmtileg tónlist og hæfir öllum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Við ákváðum að hætta að spila bara niðri í bæ og fara í úthverfin,“ segir Anna Hugadóttir, ein úr hópnum.
"Við ákváðum að hætta að spila bara niðri í bæ og fara í úthverfin,“ segir Anna Hugadóttir, ein úr hópnum. Mynd/Ólafur Kr Ólafsson
Efnisskrá tónleikanna Barokk í Breiðholtinu, sem verða í Fella- og Hólakirkju annað kvöld klukkan 20, er ítölsk og þýsk að uppruna.

„Þetta er aðgengileg tónlist eftir Corelli, Vivaldi, Buxtehude og Telemann auk þess sem við flytjum líka tónsmíð eftir eina úr hópnum, Kristínu Lárusdóttur,“ segir Anna Hugadóttir, ein tíu kvenna í kammerhópnum ReykjavíkBarokk.

Tónleikarnir eru haldnir á degi heilagrar Sesselju, verndara tónlistarinnar, og Anna segir þá upptaktinn að stærra og meira verkefni.

„Við höfum á stefnuskránni að fara með barokktónlistina á staði sem hún hefur ekki fengið að hljóma á hingað til. Það skiptir okkur miklu máli að sem flestir fái að heyra þessa músík. Hún spannar allan tilfinningaskalann, er skemmtileg og hæfir öllum. Það eru bara svo fáir sem hafa tækifæri til að hlýða á hana spilaða á upprunahljóðfæri með girnisstrengjum og öllu. Því ætlum við að fara í skólana, á elliheimilin og í félagsmiðstöðvarnar og erum að búa til prógramm fyrir vorið.“

Hópurinn hefur aðsetur í Fella- og Hólakirkju og Anna segir hann hrifinn af Breiðholtinu, enda sé mikil gróska þar. „Við ákváðum að hætta að spila bara niðri í bæ og fara í úthverfin,“ segir hún. „Þessi tónlist á heima alls staðar.“

Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk var stofnaður fyrir tveimur árum af sex konum og hefur komið fram á Sumartónleikum í Skálholti, Listahátíð í Reykjavík og Barokksmiðju Hólastiftis.

Hann skipa nú Guðný Einarsdóttir, semballeikari og organisti, Judith Pamela Tobin, semballeikari og organisti, Jóhanna Halldórsdóttir altsöngkona, Helga Aðalheiður Jónsdóttir blokkflautuleikari, Diljá Sigursveinsdóttir fiðluleikari, Íris Dögg Gísladóttir fiðluleikari, Anna Hugadóttir víóluleikari og Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari, Kristín Lárusdóttir á barokkþverflautu traverso og Magnea Árnadóttir á viola da gamba.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.