Erlent

Tugmilljónir manna lifa í ánauð

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Verst er ástandið í Máritaníu Stuðningsfólk forsetaframbjóðandans Biram Dah Abeid í Máritaníu í sumar. Hann hefur lengi barist gegn þrælahaldi, en tapaði í kosningunum fyrir Mohamed Ould Abdel Aziz, sem hefur verið forseti síðan 2009.
Verst er ástandið í Máritaníu Stuðningsfólk forsetaframbjóðandans Biram Dah Abeid í Máritaníu í sumar. Hann hefur lengi barist gegn þrælahaldi, en tapaði í kosningunum fyrir Mohamed Ould Abdel Aziz, sem hefur verið forseti síðan 2009. Vísir/afp
Nærri 36 milljónir manna eru enn hnepptir í þrældóm, eða um hálft prósent af íbúum jarðar. Þetta fullyrða samtökin Walk Free, sem berjast gegn þrælahaldi og hafa sent frá sér skýrslu þar sem reynt er að leggja mat á umfang vandans.

Með þrælahaldi er þarna átt við hvers kyns ánauð svo sem mansal, nauðungarvinnu, skuldafangelsi, nauðungarhjónabönd og aðra kynferðisnauðung.

Verst er ástandið í Máritaníu, ef miðað er við höfðatölu, en þar teljast fjögur prósent íbúa lifa við þrældóm, eða ríflega 155 þúsund manns. Pakistan kemur þar á eftir og svo Haítí. 

Flestir eru hins vegar ánauðugir í Indlandi, eða rúmlega fjórtán milljónir manna, sem þó er lægra hlutfall en í Máritaníu. Næstflestir eru í Kína, en ríflega sextíu prósent ánauðugra búa í sex löndum heims: Indlandi, Kína, Pakistan, Úsbekistan og Rússlandi. Ríflega hálf milljón manna telst lifa í þrældómi í Evrópuríkjum.

Alls náði rannsóknin til 167 landa, og kom þá í ljós að ekkert þessara landa reyndist vera alveg laust við þrælahald í nútímaskilningi þess orðs. Ástandið er einna skást á Íslandi og Írlandi, þar sem 0,007 prósent íbúanna teljast búa við þrælahald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×