Körfubolti

Bætir Friðrik Ingi metið í beinni í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Friðrik Ingi Rúnarsson og Teitur Örlygsson.
Friðrik Ingi Rúnarsson og Teitur Örlygsson. Vísir/Stefán
Kvöldið í kvöld getur orðið sögulegt fyrir bæði körfuboltalið Njarðvíkur sem og þjálfarann Friðrik Inga Rúnarsson sem vantar einn sigur til þess að bæta met sitt og Vals Ingimundarsonar yfir flesta úrvalsdeildarsigra sem þjálfari karlaliðs Njarðvíkur.

Fyrir leikinn í kvöld hafa þeir Friðrik Ingi og Valur báðir stýrt Njarðvíkurliðinu til sigurs í 94 leikjum í úrvalsdeild karla. Þeir hafa í gegnum tíðina skipst á því að taka metið hvor af öðrum síðan Valur bætti met Gunnars Þorvarðarsonar árið 1994.

Friðrik Ingi tók metið af Val tímabilið 1999-2000 en Valur endurheimti það þegar hann tók við Njarðvíkurliðinu í þriðja sinn veturinn 2008-09. Nú er Friðrik Ingi á sínu þriðju vakt í Ljónagryfjunni og hefur þegar stýrt liðinu til sigurs í tveimur leikjum og með því jafnað met Vals.

Einar Árni Jóhannsson var þó kominn ansi nálægt metinu síðasta vor en lokasigur liðsins í deildinni var hans 93. sem þjálfari Njarðvíkur í úrvalsdeild. Einar Árni hætti hins vegar með liðið eftir tímabilið en reynir kannski við metið einhvern tímann seinna.

Teitur Örlygsson er aðstoðarþjálfari Friðriks í dag en hann hjálpaði Friðriki að vinna 89 af þessum leikjum sem leikmaður Njarðvíkurliðsins. Teitur spilaði fyrir Friðrik fyrstu fimm tímabil hans sem þjálfari liðsins en missti af þremur sigurleikjum. Teitur náði einnig að hjálpa Val að vinna 80 af sínum 94 leikjum sem leikmaður.

Friðrik Ingi hefur stýrt Njarðvíkurliðinu til sigurs í sjö af tíu leikjum í deildarkeppni og tvö af þessum þremur töpum liðsins hafa verið með aðeins eins stigs mun. Leikur Njarðvíkur og Keflavíkur hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Flestir sigrar sem þjálfari Njarðvíkur í úrvalsdeild karla:

Valur Ingimundarson    94

Friðrik Ingi Rúnarsson    94

Einar Árni Jóhannsson    93

Friðrik Ragnarsson    75

Gunnar Þorvarðarson    51




Fleiri fréttir

Sjá meira


×