Íslenski boltinn

Handrið í stúku Kaplakrikavallar of lágt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Búist er við fjölmenni í Hafnarfjörðinn á laugardag.
Búist er við fjölmenni í Hafnarfjörðinn á laugardag.
Handrið í stúku á Kaplakrikavelli uppfyllir ekki öryggiskröfur um lágmarkshæð eins og þær voru skilgreindar í samþykktum aðaluppdráttum byggingarinnar. Handriðið er 84 cm sem er sex sentímetrum of lágt. Handrið í stúku á Kaplakrikavelli, Kópavogsvelli og Samsung-vellinum í Garðabæ eru öll undir lágmarkshæð handriða eins og hún er almennt skilgreind í byggingarreglugerð.

Erlendur Árni Hjálmarsson, forstöðumaður Fasteignafélags Hafnarfjarðar, segir í skriflegu svari til Fréttablaðsins að enn sé unnið við lokafrágang stúkunnar á Kaplakrikavelli, þar með talið atriði er varði öryggis og aðgengismál. „Umrætt handrið er eitt af því sem verður fullgert nú í vetur,“ kom enn fremur fram í svari hans.

Nýlega hlaut áhorfandi á knattspyrnuleik alvarlega áverka er hann féll niður úr stúku á Þórsvelli á Akureyri eftir að hafa hallað sér fram yfir handriðið. Þó er handrið á Þórsvelli 120 cm og því 34 cm hærra en á Kaplakrikavelli.

Þess ber að geta að mæling Fréttablaðsins leiddi í ljós að hæð handriðs á Samsung-vellinum í Garðabæ er 87 cm en engin svör hafa borist frá bæjaryfirvöldum Garðabæjar við ítrekuðum fyrirspurnum Fréttablaðsins vegna málsins né heldur frá yfirvöldum í Kópavogsbæ en handrið í stúku á Kópavogsvelli er 100 cm að hæð.

Í grein 6.5.4 í byggingarreglugerð Mannvirkjastofnunar segir að „handrið stiga, stigapalla og svala skulu minnst vera 1,10 m að hæð“ en þó er ekki talað sérstaklega um stúkur eða áhorfendapalla í reglugerðinni.

Á laugardaginn fer fram leikur Stjörnunnar og FH í lokaumferð Pepsi-deildar karla en búist er við miklum fjölda á leikinn. Fullvíst er að umrædd stúka á Kaplakrikavelli verði fullsetin.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segir að það sé í höndum byggingaryfirvalda á hverjum stað að tryggja að mannvirkin uppfylli kröfur sem til þeirra eru gerðar. „Það er ekki í höndum KSÍ að gera slíka úttekt heldur þar til bærra yfirvalda sem fylgja því eftir að öryggiskröfur séu uppfylltar,“ segir Þórir.


Tengdar fréttir

Heppinn að vera á lífi | Íhugar að kæra

Stuðningsmaður FH, Harjit Delay, segist vera heppinn að vera ekki í hjólastól eða hafa hreinlega hálsbrotnað er hann féll úr stúkunni á Þórsvelli fyrir leik Þórs og FH.

Þórsvöllur er sá öruggasti

Úttekt Fréttablaðsins á þeim völlum Pepsi-deildarinnar sem eru með upphárri stúku leiddu í ljós að Þórsvöllur á Akureyri er sá öruggasti. Handriðið á þeim velli er mun hærra en á hinum völlunum og ætti hann þar af leiðandi að vera sá öruggasti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×