Skoðun

Mjólkursvindl í skjóli ríkisstjórnarflokkanna

Árni Páll Árnason skrifar
Úrskurður Samkeppniseftirlitsins í mjólkurmálinu markar tímamót.

Mjólkursamsalan hefur í krafti undanþágu fyrirtækisins frá sumum ákvæðum samkeppnislaga getað haft samráð við aðrar afurðastöðvar um verð og tekið yfir fleiri og fleiri afurðastöðvar, án þess að hömlur samkeppnislaga við samrunum kæmu í veg fyrir það.

En Mjólkursamsalan og tengd fyrirtæki hafa gengið lengra og túlkað undanþáguna á þann veg að hún leyfi þeim öll bolabrögð sem hægt er að hugsa sér í samkeppni.

Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Mjólkursamsalan geti ekki á grundvelli afmarkaðrar undanþágu farið fram með óforskammaðri misnotkun á markaðsráðandi stöðu, eins og í samskiptunum við Mjólku og Kú.

Það er mjög gott að sjá.

Við í Samfylkingunni höfum um árabil talað gegn þeirri fákeppnishugsun sem einkennir lagaumgjörð mjólkurvinnslunnar og talið að aukin samkeppni myndi auka verðmætasköpun í greininni, bæta hag bænda og skila neytendum betra vöruúrvali.

Í þeim anda lögðum við til á Alþingi í apríl 2011 að undanþágan illræmda yrði afnumin. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru athyglisverðar.

Einu stuðningsmenn málsins voru þingmenn Samfylkingarinnar. Allir aðrir þingmenn – margir hverjir sjálfskipaðir talsmenn viðskiptafrelsis sem tala sig hása um ágæti þess á tyllidögum – slógu skjaldborg um fákeppnina og úrelt viðskiptaumhverfi. Allir viðstaddir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Við munum nú endurflytja þessa tillögu. Það er uppörvandi að sjá ýmsa þingmenn ríkisstjórnarflokkanna lýsa yfir andstöðu við undanþáguna nú síðustu daga. Það verður gaman að sjá hvort sá nýfæddi stuðningur við frjálsa samkeppni dugar alla leið til atkvæðagreiðslu í þingsal. Nú reynir á ríkisstjórnarflokkana. Helgi Hjörvar hefur þegar lýst því að hann endurflytji tillöguna. Við hljótum, í ljósi nýjustu tíðinda, að vænta þess að fá fleiri með í lið.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×