Menning

Það er ekki hægt annað en að hrífast með

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég kem nokkrum sinnum á ári til Íslands og sæki mér orku,“ Guðrún Ingimars.
"Ég kem nokkrum sinnum á ári til Íslands og sæki mér orku,“ Guðrún Ingimars. Mynd/úr einkasafni
Rastrelli kvartettinn hefur spilað í mörgum stærstu tónleikasölum heims.Mynd/Úr einkasafni
„Þessum strákum hefur skotið upp á stjörnuhimininn og þeir hafa spilað í mörgum stærstu tónleikasölum heims.

Það er ekki hægt annað en hrífast með þeim á tónleikum, það er svo mikill kraftur í þeim og gleði. Ég er alsæl með að hafa náð að negla þá,“ segir Guðrún Ingimarsdóttir söngkona sem heldur tvenna tónleika með Rastrelli-sellókvartettinum um helgina, í Reykholtskirkju á morgun klukkan 16 og í Listasafni Íslands á sunnudag klukkan 20.

Guðrún segir Rastrelli hafa skapað sér sérstöðu með sinni hljóðfæraskipan og dagskrá. Félagarnir eru rússneskir en Guðrún kynntist þeim í Þýskalandi þar sem hún hefur verið búsett í 19 ár.

„Þetta er skemmtilegasta sveit sem ég kem fram með,“ segir hún og lofar fjölbreyttum tónleikum.

„Við verðum með klassísk verk og nokkur íslensk lög fyrir hlé en strákarnir eru voða góðir í djassi og við verðum með djass, tangó og bossanóva eftir hlé.“

Guðrún er alin upp á Hvanneyri í Borgarfirði og kveðst hafa byrjað að syngja bítlalög áður en hún fór að tala. Eftir nám í Söngskólanum hjá Elínu Ósk Óskarsdóttur fór hún í framhaldsnám, fyrst í London og svo í Stuttgart. Þar býr hún enn.

En hvernig er daglegt líf? Veit hún alltaf hvað við tekur eftir morgundaginn?

„Nei, oft er stuttur fyrirvari. Á árum áður var allt planað langt fram í tímann í Þýskalandi en þróunin er sú að undirbúningstími okkar söngvaranna er alltaf að styttast.

Í Þýskalandi eru samt enn stærstu tækifærin fyrir söngvara. Þar er vel stutt við menningarlíf og tónlistararfleifðin er sterk. Þaðan er líka stutt að fljúga heim. Enda kem ég nokkrum sinnum á ári til Íslands og sæki mér orku.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.