Menning

Taka við skrifstofu bókmenntaverðlauna

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Óttarr Proppé alþingismaður, Sigurður Ólafsson verkefnastjóri, Max Dager, forstjóri Norræna hússins, og Einar Már Guðmundsson rithöfundur.
Óttarr Proppé alþingismaður, Sigurður Ólafsson verkefnastjóri, Max Dager, forstjóri Norræna hússins, og Einar Már Guðmundsson rithöfundur. Vísir/Ernir
Við munum taka yfir alla daglega umsýslu hvað þessi verðlaun varðar og skrifstofa verðlaunanna verður hér í húsinu,“ segir Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri í Norræna húsinu, spurður hvaða þýðingu það hafi að skrifstofa Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs verði framvegis þar til húsa. „Það hefur í áranna rás þýtt að sjá um öll samskipti við dómnefndina, Norðurlandaráð og norrænu ráðherranefndina, auk fjölmiðla.“



Skrifstofan hefur hingað til verið innan sænska þingsins og Sigurður segist telja að Norræna húsið sé að mörgu leyti betur í stakk búið til að sinna þessu verkefni. „Vonir okkar standa til að verðlaunin geti haldið áfram að vaxa og dafna og að þessi breyting verði til að auka veg þeirra enn frekar.“



Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru meðal þekktustu og virtustu bókmenntaverðlauna heims sem veitt eru innan afmarkaðra tungumálasvæða og skipa sér þar í flokk verðlauna eins og Booker-verðlaunanna, sem veitt eru á engilsaxnesku málsvæði, og Goncourt-verðlaunanna frönsku. Þau hafa frá árinu 1962 verið veitt árlega, bókmenntaverki skrifuðu á einu norrænu tungumálanna. Meðal höfunda sigurverkanna eru margir af fremstu rithöfundum Norðurlandanna á undanförnum áratugum. Íslensk verk hafa sjö sinnum hlotið Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.