Viðskipti innlent

Maraþon til að sporna við erlendu niðurhali og Netflix

Heil sería af Orange Is the New Black var í boði fyrir áskrifendur Stöðvar 2 í sumar áður en þættirnir voru sýndir vikulega á sjónvarpsstöðinni.
Heil sería af Orange Is the New Black var í boði fyrir áskrifendur Stöðvar 2 í sumar áður en þættirnir voru sýndir vikulega á sjónvarpsstöðinni.
Stöð 2 kynnir í dag nýja þjónustu fyrir áskrifendur sína, Stöð 2 Maraþon, sem er aðgengilegt undir Stöð 2 Frelsi á myndlyklum Símans og Vodafone.

Þar verður að finna heilar þáttaraðir, bæði nýjar og eldri. „Við vitum að fólk vill í auknum mæli stjórna sinni eigin dagskrá og horfa á seríur þegar þeim hentar. Þetta hentar þeim sem vilja ekki bíða í heila viku eftir næsta þætti,“ segir Jóhanna Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri dagskrárdeildar sjónvarps hjá 365 miðlum.

Jóhanna segir Stöð 2 Maraþon vera leið til að sporna við erlendu niðurhali og efnisveitum Netflix og Hulu sem sækja sífellt inn á markað Stöðvar 2 í leyfisleysi með því að bjóða upp á hágæðaefni með íslenskum texta.

Jóhanna Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri dagskrárdeildar sjónvarps hjá 365 miðlum
„Við munum keppast við að koma vinsælustu þáttaröðum okkar inn á Stöð 2 Maraþon jafnvel áður en þær fara í loftið á Stöð 2,“ segir Jóhanna og bendir á að slíkt var gert með aðra seríu Orange Is the New Black í sumar við góða undirtektir. 

Í Stöð 2 Maraþon er nú þegar að finna nokkrar af vinsælustu þáttaröðum Stöðvar 2 á borð við Game of Thrones, The Killing, Those Who Kill og Crisis. Áform eru um að auka úrvalið jafnt og þétt auk þess sem stefnt er að því að bjóða upp á úrval af bíómyndum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×