Menning

Eyða saman nótt með páfagauki

Ólöf Skaftadóttir skrifar
 Huldar Breiðfjörð
Huldar Breiðfjörð Vísir/GVA
„Gaukar fjallar um tvo menn sem hafa mælt sér mót á hótelherbergi. Annar þeirra er að koma utan af landi og hinn úr höfuðborginni og þeir hafa mælt sér mót á miðri leið til að klára páfagaukaviðskipti,“ segir Huldar Breiðfjörð rithöfundur um nýjasta verk sitt, Gaukar, sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu í haust.

„Annar þeirra hefur auglýst gefins fugl. Sá er eldri maður utan að landi og er leikinn af Jóhanni Sigurðssyni. Sá sem hefur áhuga á að taka að sér fuglinn er talsvert yngri og úr bænum, sá er leikinn af Hilmari Guðjónssyni. Þeir hittast þarna á hótelherberginu með fuglinn til að ganga frá viðskiptunum. Þá fer eldri maðurinn að heyra ofan í þeim yngri, hvernig hann er og hvaðan hann kemur og þá fara að renna á hann tvær grímur,“ útskýrir hann.

Að sögn Huldars er páfagaukurinn sem um ræðir af tegundinni African Grey.

„Þetta er stór páfagaukur sem verður mjög gamall og er eitt greindasta dýr jarðar og því er þeim eldri ekki sama hver fær fuglinn. Þessi fyrirhugaði stutti fundur á herberginu verður að heilli nótt,“ bætir hann við. „Þetta verk hefur verið hjá mér í smá tíma. Ég skrifaði verkið fyrir einhverju síðan, lagði það svo frá mér í um það bil ár og tók það svo upp að nýju þegar Borgarleikhúsið lýsti yfir áhuga á verki eftir mig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.