Skoðun

Bændamálastjórar, ekki meir

Þórólfur Matthíasson skrifar
Bændasamtökin, með dyggum stuðningi ríkisvaldsins, stjórna framleiðslu landbúnaðarafurða á Íslandi. Inntak þessarar stefnu er í grófum dráttum að kúa- og kindabændur eru hvattir til að framleiða mjólk og kindakjöt með því að bera í þá fúlgur fjár.

Ofurtollavernd

Svína- og alifuglaframleiðsla nýtur ofurtollverndar, enda óttast kindabændur að ódýr kjúklingur kynni að trufla sölu á hrygg og læri. Árvisst er að landsmenn fái fréttir af árangri stjórnsýslu Bændasamtaka og bændaráðuneytis. Ef sól skín á grill landsmanna gufar allt kindakjöt á markaðnum upp og verður ófáanlegt. Ef rignir safnast upp tvö þúsund tonna kindakjötsfjöll.

Bretarnir vilja beikon

Nýverið hóf EasyJet að flytja Breta í flugvélaförmum til landsins. Þeir vilja beikon með morgunmatnum sínum. Á meðan grísabændur reyna að rækta fram grísi með fjórar síður gufar beikon upp af markaðnum. Vegna beingreiðslna er miklu hagstæðara fyrir mjólkurbændur að framleiða mjólk en kjöt. Kjöthakk er flutt inn á ofurtollum og mótað í hamborgara sem stundum eru íslenskir og stundum ekki, sem svo sem skiptir ekki máli því verðið er sama gamla háa, þökk sé tollverndinni.

Gufar upp um jólaleytið

Og þrátt fyrir áherslu á mjólkurframleiðslu gufar smjör og rjómi upp af markaði um jólaleytið. Á sama tíma flytja mjólkurframleiðendur skyr út til Finnlands í gríð og erg. Er ekki tími til kominn að almenningur segi: Bændamálastjórar, ekki meir, ekki meir?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×