Fótbolti

Mjög vongóður um að fá Alfreð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð fagnar einu marka sinna í Hollandi í vetur en hann er líklega á leið þaðan.
Alfreð fagnar einu marka sinna í Hollandi í vetur en hann er líklega á leið þaðan. Vísir/Getty
Angel Oyarzun, varaforseti spænska úrvalsdeildarfélagsins Real Sociedad, segist „afar vongóður“ um að félagið geti gengið frá kaupunum á sóknarmanninum Alfreð Finnbogasyni sem allra fyrst. Þetta var haft eftir honum á vefsíðu staðarblaðsins Noticias de Gipuzkoa síðdegis í gær.

„Knattspyrnufélög nú til dags stíga almennt varlega til jarðar þegar kemur að leikmannamálum en ég er vongóður um að þetta leysist fyrr en síðar,“ sagði Oyarzun.

Annað blað, El Diario Vasco, fjallaði um málið í gær og sagði að kaupin á Alfreð væru óháð því hvort félagið myndi selja Antoine Griezmann eða ekki frá félaginu. Alfreð er sagður kosta spænska félagið allt að tíu milljónir evra, jafnvirði rúmlega eins og hálfs milljarðs króna, samkvæmt fréttum í Hollandi og á Spáni.

Hollenska blaðið De Telegraaf staðhæfði fyrir viku síðan að það væri aðeins tímaspursmál hvenær Alfreð færi til spænska liðsins en hann hefur síðustu vikur og mánuði verið orðaður við fjöldamörg lið í Evrópu sem mörg hver leika í sterkustu deildum álfunnar.

Alfreð varð markahæsti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar í vetur með 29 mörk en enginn Íslendingur hefur skorað fleiri mörk á einu tímabili í efstu deild í Evrópu. Hann er einnig markahæsti leikmaður Heerenveen í hollensku deildinni frá upphafi en hann á eitt ár eftir af núverandi samningi sínum við félagið.

Heerenveen á þó þess kost að framlengja samninginn um eitt ár í viðbót næsta vor.- esá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×