Menning

Blása lífi í þöglar styttur

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sigríður Þóra: "Við lögðum upp með það markmið að blása lífi í garðinn og þessar þöglu styttur Einars með léttleika og húmor í fyrirrúmi.“
Sigríður Þóra: "Við lögðum upp með það markmið að blása lífi í garðinn og þessar þöglu styttur Einars með léttleika og húmor í fyrirrúmi.“ Vísir/Vilhelm
Ungir listamenn leggja garð Listasafns Einars Jónssonar undir sig á morgun með sýningu á innsetningum, hlóðverkum og skúlptúrum.

"Að sýningunni stendur hópur sem er í kúrs sem heitir Sýningastjórnun og sýningagerð og bæði nemendur úr myndlist í Listaháskóla Íslands og listfræði í Háskóla Íslands sækja,“ segir Sigríður Þóra Óðinsdóttir, sem bæði kemur að sýningagerðinni og á verk á sýningunni. „Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir og Jón Proppé sem kenna námskeiðið fengu leyfi hjá safni Einars Jónssonar til þess að setja upp sýningu í garðinum og stukku auðvitað á það.“



Hópurinn samanstendur af 26 nemendum sem vinna að uppsetningu sýningarinnar undir leiðsögn kennaranna tveggja. „Þau sem sýna eru ungir listamenn sem hafa útskrifast á síðustu tíu árum og auk þess eru þrjú nemendaverk á sýningunni,“ segir Sigríður Þóra. „Þetta eru tólf verk, ýmist einstaklingsverkefni eða hópvinna, og við lögðum upp með það markmið að blása lífi í garðinn og þessar þöglu styttur Einars með léttleika og húmor í fyrirrúmi.“



Verkin eru af ýmsum toga; gjörningar, hljóðverk og skúlptúrar og öll unnin út frá verkum Einars Jónssonar eða honum sem persónu. „Sumir vinna út frá ákveðnum verkum í garðinum en aðrir vinna með hugmyndir Einars, hvernig hann sá sig sem listamann og hann sjálfan sem manneskju. Þannig að öll verkin tengjast honum á einn eða annan hátt,“ segir Sigríður Þóra.



Sýningin hefst klukkan 15 á morgun og stendur til klukkan 17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.