Menning

„Þetta eru þessi mest áberandi frumelement í manninum“

Baldvin Þormóðsson skrifar
Daði Guðbjörnsson hefur verið áberandi í íslensku listalífi.
Daði Guðbjörnsson hefur verið áberandi í íslensku listalífi. mynd/einkasafn
„Þessi sýning er ákveðin framþróun hjá mér, ég hef verið að taka saman þessa mörgu anga sem eru á manni sem listamanni,“ segir listmálarinn Daði Guðbjörnsson. Hann verður sextugur í næstu viku og því verður opnuð sýning á nýjum málverkum listamannsins í Galleríi Fold laugardaginn 10. maí klukkan þrjú.

„Ég hef verið að stunda það sem heitir sahaja-jóga sem hefur gert það að verkum að maður verður mun markvissari og fágaðri og meira í jafnvægi í því sem maður er að gera.“

Daði útskrifaðist úr Listaakademíunni í Amsterdam árið 1984 en áður hafði hann lokið námi frá Myndlistaskóla Reykjavíkur árið 1976 og verið áberandi í íslensku listalífi síðan hann hélt sína fyrstu sýningu árið 1980.

„Ég er ekki að mála neinar týpískar nýaldarmyndir, ég er meira að vinna upp úr því sem ég var að gera áður,“ segir Daði. Sýninguna kallar hann Landslag, sjólag og sólin þar sem viðfangsefnið eru frumefni náttúrunnar, menn, sjórinn og sólin.

Þegar maður er að fást við sjálfan sem er maður líka að fást við náttúruna

„Þetta eru þessi mest áberandi frumelement í manninum,“ segir Daði. „Fjallið stendur fyrir grunninn í manninum, síðan er vatnið sem er eiginlega það sem ruglar mann svolítið í ríminu og kemur manni úr jafnvægi eins og hafið, það ólgar. Síðan er það sólin sem er drifkrafturinn, eins og í náttúrunni, eins konar eldsneyti í þetta allt saman.“

Daði bætir því við að vissulega séu fleiri element í manninum en honum finnist þessi áðurnefndu vera mest áberandi. „Allavega í sjálfum mér hingað til eru það þessi sem ég hef mest verið að glíma við,“ segir listamaðurinn.

„Það er þannig í jógafræðunum að þessi element sem eru innra með okkur eru líka til í náttúrunni. Þegar maður er að fást við sjálfan sig þá er maður líka að fást við náttúruna, þess vegna gengur manni svona illa að temja sjálfan sig.“

Eins og áður hefur komið fram verður sýningin opnuð á laugardaginn í Galleríi Fold klukkan þrjú og verður boðið upp á afmælisköku af því tilefni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.