Skoðun

Lægri barnabætur

Oddný G. Harðardóttir skrifar
Þeir rúmu 10 milljarðar sem Alþingi samþykkti í desember að verja ætti í barnabætur munu ekki skila sér að fullu til barnafjölskyldna. Ástæðan er sú að viðmiðum fyrir tekjur og börn hefur ekki verið breytt.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2014 er þessa setningu að finna: „Að standa vörð um nýlegar hækkanir barnabóta er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um að styðja dyggilega við bakið á barnafjölskyldum.“ Þarna er vísað til þess að sama upphæð sem samþykkt var í fjárlögum 2013 var látin standa óverðbætt fyrir árið 2014. Árið 2013 var 262 milljóna króna afgangur af þeim 10,2 milljörðum króna sem ætlaðir voru til barnabóta.

Kjör barnafjölskyldna

Tekjur landsmanna hafa hækkað við nýja kjarasamninga. Þar sem tekjuviðmiðum hefur ekki verið breytt við ákvörðun barnabóta í ár munu færri vera innan tekjuviðmiðanna en á síðasta ári og einnig munu fleiri fá lægri bætur en áður. Barnabætur skerðast með nýjum kjarasamningum. Það þýðir að umtalsverður afgangur verður í árslok 2014 sem ekki verður varið til að bæta hag barna. Kannski er þarna fundin leiðin til að mæta viðbótarafslættinum á veiðigjöldum til útgerðarmanna sem nú er til umræðu á Alþingi?

Fátæk börn

Lágar tekjur heimila, bæði hvað varðar laun og félagslegar bætur, eru helsta orsök barnafátæktar sem er skammarlega mikil hér á landi. Vanda láglaunafólks mætti þó mæta með almennum hætti með því að hækka barnabætur og þá mest til þeirra sem búa við erfiðustu aðstæðurnar. Þar er stærsti hópurinn barnafjölskyldur sem eiga ekki húsnæði en verja of stórum hluta launa sinna til húsaleigu. Sá hópur fær ekki svokallaða skuldaleiðréttingu hægristjórnarinnar enda skuldar hann ekki verðtryggð húsnæðislán. Í stað þess að auka stuðning við barnafjölskyldur er ríkisstjórnin í raun að lækka barnabætur þegar allar greiningar sýna að það eru barnafjölskyldur sem eru í mestum vanda og fátækum börnum fer fjölgandi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×