Innlent

Verður að þétta byggð í samráði við íbúa

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
„Ef það á að þétta byggð í Reykjavík verður að gera það í samvinnu við íbúa. Það verður að vera á hreinu hvert verklagið er,“ segir Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.

Íbúar í vesturbæ urðu fyrir talsverðum óþægindum og tjóni vegna sprenginga á Lýsisreit, snemma í vetur. Íbúar nokkurra fasteigna á svæðinu undirbúa málssókn vegna tjóns á fasteignum sínum.

Hildur segir að í kjölfar þess hafi hún og fleiri fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lagt til að skipaður yrði vinnuhópur sem hefði það hlutverk að skoða uppbyggingarmál borgarinnar.

Hópnum yrði falið að endurskoða núgildandi byggingarreglugerð, kortleggja réttarstöðu íbúa, endurskoða reglur heilbrigðiseftirlitsins og fleira er lýtur að stöðu íbúa gamalla og gróinna hverfa í framtíðinni.

Borgarstjórn samþykkti að skipa slíkan hóp 4. mars síðastliðinn og átti umhverfis- og skipulagsráð að gera það. Síðan hefur ekkert gerst.

Hjálmar Sveinsson, Samfylkingu, á sæti í skipulagsráði. Hann segir að það sé yfirsjón að hópurinn skuli ekki hafa verið skipaður strax. „Ef við ætlum að fylgja þeirri stefnu sem er mörkuð í aðalskipulagi að þétta byggð er nauðsynlegt að fara í gegnum allar vinnureglur þar sem verið er að byggja hús inni í grónum hverfum,“ segir Hjálmar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×