Fótbolti

Bale klár í slaginn gegn Bayern

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo er klár líkt og Bale.
Cristiano Ronaldo er klár líkt og Bale. Vísir/Getty
Stórveldin Bayern München og Real Madrid mætast í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld á Allianz-vellinum í München. Real er 1-0 yfir eftir fyrri leikinn en eina mark leiksins skoraði Frakkinn KarimBenzema.

Varnarmúr Real reyndist Bæjurum erfiður fyrir viku en Carlo Ancelotti teiknaði upp skyndisóknalistaverk sem virkaði mjög vel og má fastlega búast við að Real-menn spili svipaðan leik í kvöld.

Munurinn er þó að tveir af bestu knattspyrnumönnum heims, CristianoRonaldo og Gareth Bale, verða líklega báðir í byrjunarliðinu en Bale er allur að ná sér af veikindum sem hafa hrjáð hann undanfarna daga. Ancelotti staðfesti á blaðamannafundi í gær að hann yrði klár í slaginn.

Bale var ekki í byrjunarliðinu í fyrri leiknum heldur kom hann inn á fyrir Ronaldo þegar 15 mínútur voru eftir. Það mun gera mikið fyrir Real og gera Bayern erfiðara um vik ef þeir byrja báðir í skyndisóknaruppleggi Ancelottis.

„Hlutirnir verða ekki auðveldari fyrir okkur ef þeir byrja báðir leikinn,“ sagði ArjenRobben, framherji Bæjara, á blaðamannafundi í gær.

„Það kom okkur á óvart hversu varnarsinnaðir Real-menn voru í fyrri leiknum. Við sjálfir verðum að einbeita okkur að því að spila sóknarleik og skora mörk. En við megum ekki gleyma okkur í skyndisóknunum þeirra.“

Leikurinn hefst klukkan 18.45 og er í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×