Lífið

Fjölhæf leikkona á leið til Íslands

Baldvin Þormóðsson skrifar
Natalie leikur á harmonikku.
Natalie leikur á harmonikku. vísir/getty
Natalia Tena leikur þokkagyðjuna Osha í vinsælu þáttaröðunum Game of Thrones en hún hefur víst meira til brunns að bera en bara leiklistina.

Leikkonan syngur nefnilega og spilar á harmonikku með hljómsveitinni Molotov Jukebox sem kemur fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í sumar.

Molotov Jukebox voru að sleppa frá sér plötunni Carnival Flower sem kom út 31. mars en tónlist sveitarinnar er blanda af lifandi blús og djass.

Hljómsveitin Molotov Jukebox spilaði á sjö tónlistarhátíðum í fyrra. Þar á meðal var tónlistarhátíðin Glastonbury en hún þykir þykir ein af stærstu tónlistarhátíðum heims.

Natalia hefur komið víða að en hún lék meðal annars hálf-nornina Nymphadora Tonks í vinsælu Harry Potter-myndunum. Einnig fór hún með hlutverk stúlkunnar Ellie í rómantísku gamanmyndinni About a Boy.

Tena lærði á harmonikku þegar hún vann með leikhópnum KneeHigh í Bretlandi. Þar þurfti hver meðlimur að velja sér hljóðfæri til þess að læra á.

Secret Solstice-hátíðin fer fram dagana 20. til 22. júní og eru fjölmörg atriði sem koma þar fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×