Skoðun

Forsendubrestur óbættur

Árni Páll Árnason skrifar
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um niðurfellingu skulda er nú komið til umfjöllunar í þingnefnd.

Við í Samfylkingunni höfum djúpstæða sannfæringu fyrir því að enn sé ýmislegt eftir ógert í skuldamálum heimilanna. Þess vegna sögðum við fyrir kosningar að gera þyrfti meira til að leysa hinn raunverulega forsendubrest. Mæta heimilunum sem keyptu á versta tíma, á árunum fyrir hrun, og standa enn í þeirri stöðu að lánin hafa hækkað meira en sem nemur verðhækkun íbúðarinnar. Mæta heimilunum sem ekki nutu 110% leiðarinnar með sama hætti og aðrir – skuldurum Íbúðalánasjóðs og fólkinu með lánsveð.

Við sögðum þetta skýrt fyrir kosningar. Og við gerðum meira: Við lögðum til álagningu á fjármálafyrirtæki til að fjármagna aðgerðirnar, með sama hætti og nú hefur verið gert.

Vantar upplýsingar

Ríkisstjórnin hefur sem sagt tækin til að leysa vandann – 80 milljarða, sem við hjálpuðum henni að afla. En hún hyggst ekki nýta þau til að leysa forsendubrestinn. Tillögur ríkisstjórnarinnar fela í sér að það fólk sem á erfiðast með að láta enda ná saman fær hlutfallslega minnst. Í staðinn er peningum dreift til fólks sem ekki hefur orðið fyrir neinum forsendubresti, heimila sem kannski keyptu hús á sögulega lágu verði fyrir löngu síðan og búa svo vel að verð húsnæðisins hefur hækkað miklu meira en lánið sem á því hvílir. Sum þessara heimila skulda lítið sem ekkert í húseign sinni og bera mjög lítinn húsnæðiskostnað.

Ríkisstjórnin hefur engar upplýsingar getað sett fram um hversu hátt hlutfall af peningunum fer til þeirra sem teljast til stóreignafólks, til fólks með gríðarlega háar tekjur eða hversu hátt hlutfall það er sem fer til fólks sem ber mjög léttan húsnæðiskostnað, fólks sem keypti fyrir mörgum árum og varð ekki fyrir forsendubresti.

Ósanngirnin birtist víðar í þessum tillögum. Um fleiri ágalla á þeim mun ég fjalla í fleiri greinum á næstunni.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×