Fótbolti

PSG ætlar að vinna Meistaradeildina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lavezzi fagnar marki í fyrri leik liðanna.
Lavezzi fagnar marki í fyrri leik liðanna. fréttablaðið/getty
Tveir leikir fara fram í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Þetta eru seinni leikir liðanna.

Real Madrid ferðast til Þýskalands með 3-0 forskot eftir fyrri leik liðanna á Spáni. PSG er einnig í fínum málum en liðið vann fyrri leikinn gegn Chelsea, 3-1.

Chelsea skoraði þó mikilvægt útivallarmark og 2-0 sigur liðsins á heimavelli fleytir því áfram í undanúrslit.

Laurent Blanc, þjálfari PSG, segir að þrátt fyrir ágæta stöðu komi ekki til greina hjá hans liði að liggja til baka og verja forskotið. Hann lofar mikilli skemmtun.

„Þetta verður frábær leikur. Chelsea mun sækja grimmt á okkur og fyrir vikið eigum við að fá færi til þess að sækja. Það munum við svo sannarlega gera,“ sagði Blanc.

„Við viljum spila okkar leik þó svo við séum á útivelli. Við höfum sett markið mjög hátt og aðalmarkmið liðsins er að vinna Meistaradeildina. Ef við ætlum að vera alvörulið í Evrópu þá þurfum við að geta stýrt leikjum og spilað okkar leik á heima- og útivelli.“ Leikirnir hefjast klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×