Menning

Þótti Passíusálmarnir pirrandi

Snærós Sindradóttir skrifar
Hilmar Örn Agnarsson, Þórður Magnússon og Megas grúska í útgáfu Passíusálmanna frá 1906. Bókina hafði Megas til hliðsjónar þegar hann samdi lögin sín en svo glataðist hún honum. Vinur gaf honum annað eintak fyrir skömmu sem nýtist vel við skipulagningu tónleikanna.
Hilmar Örn Agnarsson, Þórður Magnússon og Megas grúska í útgáfu Passíusálmanna frá 1906. Bókina hafði Megas til hliðsjónar þegar hann samdi lögin sín en svo glataðist hún honum. Vinur gaf honum annað eintak fyrir skömmu sem nýtist vel við skipulagningu tónleikanna. VÍSIR/Vilhelm
Meistari Megas, í litríku gallabuxunum sínum, ætlar að syngja alla Passíusálma Hallgríms Péturssonar á þrennum tónleikum í apríl. Sálmarnir eru fimmtíu talsins og hafa margir hverjir aldrei heyrst áður.

„Ég er alinn upp við að Passíusálmarnir suðuðu í útvarpinu heima og ég lét þá pirra mig. Það var eitthvað við tóninn sem fór í taugarnar á barninu. Prestarnir leiðréttu líka alltaf flámælið sem er svo fallegt. Svo vandist þetta allt saman og með árunum fór ég að heillast af tungumálinu, öllum dönskuslettunum og bragfræðinni.“

Tilbúinn í fjörutíu ár

Megas hefur flutt Passíusálma Hallgríms Péturssonar með reglulegu millibili síðastliðin fjörutíu ár. Nú hefur hann blásið til risavaxinnar veislu í tilefni 400 ára afmælis sálmaskáldsins. Hann hefur fengið til liðs við sig hljómsveitina Moses Hightower, Caput-hópinn, Möggu Stínu, strengjasveit, rokksveit og þrjá ólíka kóra en auk þess útsetur sonur hans, Þórður Magnússon, tónlist föður síns fyrir stærri sveit. Hilmar Örn Agnarsson, organisti og kórstjóri ,er listrænn stjórnandi tónleikanna.



Megas
„Það mæðir mikið á Magnúsi,“ segir Hilmar „En hann hefur verið tilbúinn í fjörutíu ár og ég í fjórtán. Svo við erum reynslumiklir.“ 

Félagarnir fluttu Passíusálmana í Skálholti árið 2001. „Þá var algjörlega fullt út úr dyrum og við gátum ekkert gert nema að hleypa öllum inn. Þú lokar ekki Skálholtskirkju á föstudaginn langa. Þá var mætt ungt fólk, rokkarar og svona, og allt upp í áttrætt. Það var setið á gólfinu og í stiganum og hvar sem fólk komst. Allir voru með sálmabækur. Þessi stund var alveg ógleymanleg.“

Allt að smella saman

Meðan á viðtalinu stendur sitja Þórður og Megas og skipuleggja tónleikana. „Þú ættir að geta bætt við erindum hér,“ segir Megas og Þórður tekur undir.

Þórður segist hafa unnið að útsetningunni fram að hádegi en það örlar ekki á kvíða hjá þeim þó það styttist í að slegið verði inn. „Nei, ég ákvað að úthýsa kvíðanum. Hann hefur ekkert upp á sig,“ segir Megas. 

Áfram KR á milli hríða

Lög Megasar við Passíusálmana voru samin þegar Þórður, sonur hans, var að koma í heiminn. 

„Ég gerði fyrsta sálminn 1969 en árið 1973 ruddist ég í að klára þá. Svo þetta er í raun seventís-músík. Ég notaði bara einn orginal tón sem mér fannst hljóma vel með sálmunum. Ég gerði ekkert annað á meðan. Þá var Þórður að koma í heiminn en það var ekki orðið félagslega viðurkennt að faðirinn væri viðstaddur fæðinguna. Svo ég var bara heima að semja." 

„Svo þegar frúin kom heim með Þórð nokkrum dögum síðar þá var aðkoman kannski ekki eins og nýbökuð móðir vill hafa það. En ég hafði ekki gefið mér tíma til að grípa í sóp eða svoleiðis." 

„Hún heyrði svo lögin ekki fyrr en áttatíu og eitthvað. En þá taldi ég að hún væri orðin sátt."

„Þarna var alvanalegt að mæður væru í tíu daga inni eftir fæðingu en ef móðir fór fyrr fékk hún peninga á móti þeim dögum sem hún sleppti. Núna situr pabbinn við hliðina og hrópar áfram KR, áfram KR. Þegar ég eignaðist barn árið 1992 sat ég til dæmis við hliðina á móðurinni og sagði brandara, það linaði verkina. Móðir þarf auðvitað á stuðningi að halda í þessu öllu saman.“

Hilmar Örn Agnarsson og Megas VÍSIR/GVA
Megas enginn Jesús

Passíusálmarnir eru eins og allir vita sagan af píslargöngu Krists 

„Jesús er mikið að berjast á móti valdstjórninni í sálmunum. Ég hef ekki samúð með valdstjórninni. Ég reyni að tala sem minnst við þessa menn. Þeir snúa öllu sem maður segir og reyna að finna eitthvað á mann.“ 

Magga Stína syngur hlutverk Jesú á tónleikunum en aðspurður segir Megas það aldrei hafa komið til greina að snúa hlutverkunum við. „Hún hefur alltaf verið Jesús. Ég er bara sögumaður og Magga Stína er Jesús. Að snúa því við? Það væri skandall.“

Tónleikarnir eru mjög umfangsmiklir eins og áður sagði og mælir Megas með að fólk komi á þá alla. „Já, fólk verður auðvitað að vita hvað gerist næst í sögunni.“ 

Tónleikarnir þrennir eru mjög ólíkir í sniðum og spanna skalann frá hefðbundnari sálmatón yfir í rokkmúsík. Megas segist þó ekki geta sagt hver sé sinn uppáhalds Passíusálmur. „Ég geri ekki upp á milli barnanna hans Hallgríms.“ 

Toppnum ekki náð

Það er auðvelt að velta því fyrir sér hvort fimmtíu sálma flutningur sé ekki merki um að Megas ætli að hætta á toppnum og kveðja Hallgrím Pétursson. Hann segir þó að það standi ekki til.,

„Næst munum við halda okkar eigin þriggja daga Hróarskelduhátíð og flytja þá alla í einu, fimmtíu talsins.“ 

Fyrstu tónleikarnir verða þann 3. apríl næstkomandi, því næst 10. apríl og lokakafli sálmanna, sjálf krossfestingin, fer svo fram á föstudaginn langa. 

Hægt er að kaupa miða á einstaka tónleika eða svokallaðan páskapassa á tilboðsverði. Tónleikarnir fara fram í Grafarvogskirkju og miðasala stendur yfir á midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.