Menning

Metaðsókn á nektargjörning

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Curver Thoroddsen hefur í heilan mánuð flokkað pappír fyrir augum almennings, kviknakinn.
Curver Thoroddsen hefur í heilan mánuð flokkað pappír fyrir augum almennings, kviknakinn. mynd/einkasafn
„Það er búið að vera metaðsókn á sýninguna hér í Ketilhúsinu og fólk er mjög áhugasamt,“ segir listamaðurinn Curver Thoroddsen en sýningu hans, Verk að vinna/Paperwork, lýkur á sunnudag. Þá hefur hann flokkað pappír í heilan mánuð allsnakinn.

„Mér hefur liðið ótrúlega vel hérna en þetta tekur auðvitað mikið á,“ segir Curver en hann hefur ekkert farið út úr Ketilhúsinu meðan á sýningu stendur. „Ég hef ekki farið út úr húsi í heilan mánuð. Það er ekkert gaman fyrir fólk að sjá mig flokka á safninu og hitta mig svo þremur tímum síðar á kaffihúsi,“ útskýrir Curver. Hann hefur því ekki átt í neinum samskiptum við fólk, nema starfsfólk safnsins, í heilan mánuð.

Hann hefur nú í heilan mánuð farið í gegnum blöð og pappíra af ólíkum æviskeiðum sínum. Um er að ræða pappíra sem hafa safnast saman á síðastliðnum tuttugu árum heima hjá Curver.

„Það mætti segja að ég sé með þessari sýningu að hvetja fólk til að taka til í sínu lífi og í samfélaginu öllu.“ Hugmyndin á bak við sýninguna er hvernig mannskepnan er föst í pappírsvinnu og að hún er alltaf að endurskoða fortíðina og spá í framtíðina. „Það eru langflestir sem sjá samhljóm í sýningunni og geta samtengst.“

Ætlarðu að gera þetta aftur? „Ég gæti ekki hugsað mér að gera þetta aftur,“ segir Curver.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.