Skoðun

Af vondu réttlæti

Árni Páll Árnason skrifar
Um leið og skuldaniðurfellingarhugmyndirnar voru kynntar í Hörpu, kallaði ég eftir skýringum frá ríkisstjórninni um áhrif niðurfellinganna.

Hversu stór hluti niðurfellingarinnar lendir hjá þeim sem skulda mikið og hversu stór hjá þeim sem skulda lítið sem ekkert?

Hversu margir af þeim sem skulda mikið og eru í vanda þess vegna komast út úr vanda með aðgerðinni og hversu margir verða áfram í vanda?

Hversu stór hluti lendir hjá þeim sem eru á svo háum tekjum að húsnæðiskostnaður er lítill hluti ráðstöfunartekna?

Hversu margir af þeim sem skulda mest eru á háum tekjum?

Ríkisstjórnin fékk einn og hálfan mánuð til að svara þessum spurningum og skilaði auðu. Forsætisráðherra sagði ekkert vitað um þessa þætti og engar upplýsingar liggja fyrir um þetta. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin ráði ekki við að svara svo einföldum spurningum um áhrif sinna helstu aðgerða. Upplýsingar sem gera mögulegt að áætla þessa þætti eru aðgengilegar í skattkerfinu eða má ráða af fyrri rannsóknum.

Við í Samfylkingunni studdum álagningu bankaskatts fyrir jól og teljum ástæðu til að verja þeim 80 milljörðum sem gert er ráð fyrir að hann skili til að taka á vanda skuldsettra heimila og bæta raunverulegan forsendubrest. Þess vegna höfum við lagt fram ítarlegar tillögur um að mæta þeim hópum sem keyptu á versta tíma og sitja uppi með tjón sem enn er óbætt.

Tillögur ríkisstjórnarinnar munu ekki bæta forsendubrestinn. Allur sá fjöldi fólks sem upplifði að lán hækkuðu meira en sem nam verðhækkun húsnæðis mun áfram sitja uppi með sitt tjón óbætt að hluta eða að öllu leyti. Fólkið sem var í mestum skuldavanda mun lítið sem ekkert fá, því allar aðgerðir fyrri ríkisstjórnar verða dregnar frá því sem fólk fær nú. Gríðarlegar fjárhæðir fara til fólks sem ekki hefur orðið fyrir neinu tjóni og jafnvel hagnast á þróun undanfarinna ára.

Sannast nú hið fornkveðna: Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×