Menning

Mikið er um að vera í Gerðubergi í janúar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri í Gerðubergi segir mikið vera um að vera í Gerðubergi á næstunni.
Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri í Gerðubergi segir mikið vera um að vera í Gerðubergi á næstunni. fréttablaðið/stefán
„Nú getur fólk komið til okkar einu sinni í mánuði og spilað valin spil, ásamt leiðbeinanda frá Spilavinum,“ segir Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri í Gerðubergi. Í janúar hefur göngu sína nýr viðburður í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi sem kallast Spilakaffi og unninn er í samstarfi við Spilavini. Spilakaffið er opið spilakvöld þar sem fólk getur komið saman og fengið leiðsögn eða fylgst með skemmtilegum spilum.

Fyrsta Spilakaffiskvöldið fer fram í kvöld og munu Spilavinir kynna fyrir gestum tveggja manna spil eins og Sequence, Qwirkle, 10 days spilin, Dominion, 11 nimmt, Carcassonne og fleiri spennandi spil. „Ég er ekki mikill spilasérfræðingur en þær hjá Spilavinum vita allt um spilin,“ segir Hólmfríður létt í lundu. Spilavinir er verslun sem sérhæfir sig í spilum fyrir alla fjölskylduna. Verslunin Spilavinir var stofnuð árið 2007 af þeim vinkonum Svanhildi Evu Stefánsdóttir og Lindu Rós Ragnarsdóttir.

Spilakaffi er ný viðburðaröð á miðvikudagskvöldum en á þeim kvöldum er alltaf eitthvað um að vera í Gerðubergi. „Dagskráin á miðvikudagskvöldum skiptist í Handverkskaffi fyrsta miðvikudagskvöldið í mánuði, Spilakaffi annað miðvikudagskvöldið, Heimspekikaffi það þriðja og Bókakaffi fjórða miðvikudagskvöldið í mánuðinum.“

Markmiðið með þessum kvöldum er að gefa gestum kost á að kynnast áhugaverðum umfjöllunarefnum í notalegu umhverfi. „Á handverkskvöldunum okkar höfum við til dæmis farið yfir allt frá fluguhnýtingum til uppstoppunar, ásamt tréskurði og ýmsu hekli,“ segir Hólmfríður. Á komandi misseri segir Hólmfríður ýmislegt vera á döfinni í Gerðubergi. „Við förum yfir það hvernig maður heggur í grjót, yfir íslenska eldsmíði og hvernig íslensk blóm eru hekluð.“

Aðgangur er ókeypis og spil á staðnum og allir velkomnir sem mega vera úti til klukkan tíu á kvöldin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.