Menning

Edda Heiðrún sýnir fyrir norðan

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Edda Heiðrún málar með munninum.
Edda Heiðrún málar með munninum. Fréttablaðið/Pjetur
Galleríið á Læknastofum Akureyrar verður prýtt myndum Eddu Heiðrúnar Backman, listmálara, leikara og leikstjóra, næstu vikurnar, reyndar frá og með síðdeginu á morgun því formlega verður sýningin á myndum hennar opnuð klukkan 16 þann 16. janúar. Allir eru velkomnir.



Það er óvenjulegt að listasalir séu á læknastofum en Svanlaug Inga Skúladóttir, framkvæmdastjóri Læknastofu Akureyrar, segir það hafa viðgengist þar frá árinu 2005. „Við höfum verið með gallerívegg á biðstofunni og göngunum hjá okkur alveg frá því við opnuðum og erum alltaf með sýningar – ekki alltaf eftir þekkta málara en stundum rekur þá á fjörur okkar eins og núna. Það er mjög gaman að vera alltaf með list á veggjunum,“ segir hún.



Læknastofur Akureyrar eru á 6. hæð við Hafnarstræti 97 og að sögn Svanlaugar Ingu koma þangað alls um 2.300 manns á mánuði að heimsækja læknana og sér þá sýningarnar í leiðinni. „Fólk sem þarf að koma aftur og aftur hefur gaman af að sjá alltaf nýja og nýja list,“ segir hún.



Edda Heiðrún hefur fengist við myndlist síðan haustið 2008 og málar með munninum. Áður hafði hún starfað sem leikkona, söngkona og leikstjóri. Hún segir sköpunina halda sér lifandi, ekki aðeins sem tilfinningaveru, heldur hafi hún áhrif á lífsviljann og líkamann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.