Samstarf

Auðveldara að skilja og aðstoða nemendur

Svava segir námið hagnýt. Það hefur nýst henni jafnt í starfi sem einkalífi.
Svava segir námið hagnýt. Það hefur nýst henni jafnt í starfi sem einkalífi. MYND/GVA
Svava Jóhannesdóttir, kennari við hársnyrtiskóla Tækniskólans, lauk námi í undirstöðuatriðum hugrænnar atferlismeðferðar hjá Endurmenntun Háskóla Íslands síðastliðið vor. Hún er ánægð með námið og hefur það nýst henni bæði í starfi og einkalífi.

"Ég hef kennt við framhaldsskóla í tólf ár og finnst ég skynja aukna vanlíðan nemenda sem margir glíma við þunglyndi, kvíða og ýmislegt annað. Ég vissi að í náminu væru kenndar aðferðir til að takast á við slíkt með uppbyggilegum hætti og hugsaði með mér að þannig ætti ég mögulega auðveldara með að skilja og aðstoða nemendur. Auk þess var ég sannfærð um að nám af þessu tagi gæti nýst mér nýst vel, bæði í starfi og einkalífi," segir Svava.

Megináhersla námsins er á hagnýta þekkingu á undirstöðuatriðum hugrænnar atferlismeðferðar. Markmiðið er að veita fræðilega yfirsýn yfir grunnatriði kenninga um hugræna atferlismeðferð, líkön, hugtakanotkun og aðferðir. Nemendur öðlast skilning á tengslum kenninga og meðferðar, einkum við þunglyndi, kvíða og álag í daglegu lífi. Námið er ekki eiginlegt meðferðarnám en nemendur læra að beita grunnatriðum í samtalsaðferðum hugrænnar atferlismeðferðar, þekkja einkenni og leggja mat á alvarleika streitu, kvíða og þunglyndis. Þeir læra að nota fimm þátta líkan hugrænnar atferlismeðferðar og þekkja tengsl hugsana, hegðunar og tilfinninga. Þeir læra sömuleiðis að beita aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar í fyrirbyggjandi tilgangi í afmörkuðum starfstengdum verkefnum.

Námið er einkum ætlað háskólamenntuðu fagfólki innan heilbrigðis-, félags- og menntavísinda sem og stjórnendum stofnana og fyrirtækja.

Svava segir nemendur hafa komið úr öllum áttum. „Það gaf mikla breidd og er gaman að sjá hversu víða aðferðirnar geta nýst.“ Svava segir samtalstæknina sem kennd er í náminu hafa nýst sér vel í starfi. „Við lærum til dæmis að spyrja opinna spurninga sem kalla fram önnur og ítarlegri svör en já og nei. Ef mér finnst ástandið alvarlegt veit ég nú líka hvert ég get vísað skjólstæðingum mínum.“

Námið byggist upp á 98 kennslustundum og 21 klukkustunda handleiðslu en kennslan fer fram í sjö tveggja daga lotum. Á vormisseri eru kenndar fjórar lotur og á haustmisseri þrjár. Handleiðslan fer fram í litlum hópum eftir hverja kennslulotu. „Mér fannst hún sérlega gagnleg og námið í heild afar hagnýtt.“

Námið gefur 10 ECTS einingar á grunnstigi háskóla og getur Svava vel hugsað sér að fara í frekara nám. Það hefst aftur í lok janúar og enn eru nokkur sæti laus. Allar nánari upplýsingar er að finna á endurmenntun.is en þar er jafnframt hægt að sækja um námið.

200 námskeið á vormisseri

Á vormisseri eru hátt í 200 námskeið á dagskrá hjá Endurmenntun Háskóla Íslands en árlega  sækja um sjö þúsund manns námskeið þar. Þátttakendur hafa afar ólíka reynslu og menntun og eru á öllum aldri. Sumir sækja námskeið til að styrkja sig í starfi en aðrir sækjast meira eftir fróðleik í bland við skemmtun.

Námskeiðsframboðinu er skipt upp í tvo meginflokka, Fyrir þig og Fyrir starfið. Eins og ávallt er mikið úrval starfstengdra námskeiða á ýmsum fræðasviðum sem má finna í flokknum Fyrir starfið. Auk þess eru fjölmargir spennandi valkostir á sviði menningar, persónulegrar hæfni og tungumála í flokknum Fyrir þig.

Endurmenntun hvetur alla til að nýta þá möguleika sem þeir eiga á fræðslustyrkjum t.d. hjá stéttarfélögum.

Skráning á námskeið vormisseris er nú þegar hafin á endurmenntun.is og í síma 525 4444.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×