Innlent

Lögreglustjóri svarar Persónuvernd: Segist ekki hafa efast um umboð Gísla Freys

Bjarki Ármannsson skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/GVA
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, kveðst í bréfi sínu til Persónuverndar ekki hafa haft tilefni til „að álykta, eða ætla, að ann­ar­legar ástæður gætu legið að baki“ beiðni Gísla Freys Valdórssonar, þáverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, um greinargerð varðandi hælisleitandann Tony Omos. Persónuvernd óskaði eftir upplýsingum um afhendingu þessarar greinargerðar, sem átti sér stað í nóvember 2013 þegar Sigríður Björk var lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Þetta kemur fram á mbl.is. Líkt og komið hefur fram, óskaði Gísli Freyr eftir þessum upplýsingum daginn eftir að fréttir birtust upp úr minnisblaði innanríkisráðuneytisins um Tony Omos. Gísli Freyr hefur nú játað að hafa lekið þessu minnisblaði til fjölmiðla. Í bréfi sínu segir Sigríður Björk að starfsmenn undirstofnana ráðuneytis hljóti almennt séð að geta gengið að því vísu að erindi ráðuneytisins eigi sér „réttmætar og eðlilegar forsendur.“

Sjá einnig: Lögreglustjóri afhenti aðstoðarmanni gögn sem hann mátti ekki biðja um

„Þá hljóta for­stöðumenn og starfs­menn und­ir­stofn­ana að gefa sér, líkt og und­ir­rituð í greint sinn, að þeir sem taka við upp­lýs­ing­um fyr­ir hönd ráðherra og ráðuneyt­is virði þær regl­ur sem gilda um meðferð viðkvæmra upp­lýs­inga sem þeir kalla eft­ir og fá starfa sinna vegna,“ hefur mbl.is jafnframt eftir skrifum Sigríðar.

Persónuvernd óskaði eftir þessum upplýsingum til að athuga hvort skilyrðum um meðferð persónuupplýsinga hafi verið fullnægt og mun væntanlega skila áliti sínu um það eftir áramót. Ekki náðist í Sigríði Björk vegna málsins.


Tengdar fréttir

Lögreglustjórar furða sig á verklagi Sigríðar

Lögreglustjórar víða um land sem Fréttablaðið ræddi við í gær kannast ekki við það verklag sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, fyrrverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum, viðhafði í samskiptum sínum við Gísla Frey Valdórsson í lekamálinu.

Allt veltur á innihaldi greinargerðar Sigríðar

Innihald greinargerðar sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi aðstoðarmanni innanríkisráðherra í fyrra ræður hvort lögreglustjórinn hafi mátt senda skjalið segir lektor við Háskóla Íslands.

Aðstoðarmaður leyndi illa fengnu skjali í ráðuneytinu

Ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins segir aðstoðarmann ráðherra ekki hafa mátt fá greinargerð sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum afhenti. Aðstoðarmaðurinn leyndi skjalinu sem ekki er skráð hjá ráðuneytinu.

Gísli ræddi við Sigríði daginn sem gögnin voru birt

Aðstoðarmaður innanríkisráðherra átti í talsverðum samskiptum við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, daginn sem fréttir birtust byggðar á leka úr ráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×