Fótbolti

Norðmenn syrgja einn sinn mesta markaskorara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Odd Iversen á sínum yngri árum.
Odd Iversen á sínum yngri árum. Mynd/Heimasíða RBK
Odd Iversen, einn mesti markaskorari í norskum fótbolta, lést í dag 69 ára gamall eftir veikindi en Norðmenn hafa minnst afreka þessa öfluga fótboltamanns í dag.

Viðar Örn Kjartansson ógnaði markameti Odd Iversen í sumar en Iversen skoraði 30 mörk fyrir Rosenborg tímabilið 1968 og um tíma leit út fyrir að þetta 46 ára gamla met væri í hættu. Það stóðst hinsvegar atlögu íslenska framherjans.

Odd Iversen varð fjórum sinnum markakóngur norsku deildarinnar síðast árið 1979 þegar hann var orðinn 34 ára gamall og lék með Vålerenga.

Lengst af lék Iversen þó með Rosenborg og hann er ein stærsta knattspyrnugoðsögn félagsins.

Odd Iversen skoraði alls 158 mörk í efstu deild í Noregi og það markamet stóð í meira en tuttugu ár eða þar til að Petter Belsvik bætti það árið 2003. Síðan þá hafa bæði Harald Martin Brattbakk (166) og Sigurd Rushfeldt (172) komist upp fyrir hann.

Odd Iversen skoraði 19 mörk í 45 landsleikjum fyrir norska landsliðið frá 1967 til 1979. Tvö af mörkum hans komu á móti Íslandi þar af var annað þeirra skorað beint úr aukaspyrnu á Laugardalsvellinum 30. júní 1977.

Odd Iversen er faðir knattspyrnumannsins Steffen Iversen sem spilaði með Tottenham á árunum 1996 til 2003.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×