Viðskipti innlent

Ferðamennirnir héldu verksmiðju gangandi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hröð uppbygging gistirýmis hefur reynst happafengur fyrir byggingariðnaðinn og er helsta ástæða þess að einu steypueiningaverksmiðju Austurlands tókst að þreyja þorrann.

„Þetta hefur gert það að verkum að við erum búnir að vera með fullan rekstur yfir þennan harðasta tíma eftir hrunið. Við höfum aldrei lokað verksmiðjunni, aldrei slökkt á henni,“ segir Jón Grétar Traustason, verkefnisstjóri VHE á Austurlandi, í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Úr steypueiningaverksmiðju VHE í Fellabæ.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Einingaverksmiðjan er í Fellabæ á Fljótsdalshéraði, við hringveginn í útjaðri Egilsstaða. Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar, VHE, eignaðist verksmiðjuna eftir að Malarvinnslan fór í þrot og þar starfa að jafnaði um tíu manns. Þar sáum við sérhæfðan vagn taka steypueiningar í hótelbyggingu í Mývatnssveit, eitt dæmið um hvernig byggingageirinn nýtur góðs af ferðaþjónustu.

„Strax eftir hrunið lentum við í stórum verkefnum fyrir Alcoa á Reyðarfirði, byggðum fyrir þá stórhýsi, og svo í framhaldi af því þá hófst hér ferðamannauppbygging sem gerirþað að verkum að það þarf húsnæði og það þarf að koma hratt. Þá eru steyptar einingar rétti kosturinn,“ segir Jón Grétar.



Guðgeir Sigurjónsson, framkvæmdastjóri VHE á Austurlandi.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Einingaverksmiðjan er aðeins lítill hluti af viðamikilli starfsemi Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar á Austurlandi. 

„Við erum með um 200 manns í vinnu, bæði í bygginga- og verktakastarfsemi, og síðan þjónustu í kringum álverið, sem er stærst,“ segir Guðgeir Sigurjónsson, framkvæmdastjóri VHE á Austurlandi. 

Nánar verður fjallað um fyrirtækið og fjölskylduna á bak við það í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 annaðkvöld, þriðjudagskvöld.

Hús Vélaverkstæðis Hjalta Einarssonar eru með bláum þökum við hlið Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×