Fótbolti

Zlatan málaði fótboltaskóna sína svarta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic og skórnir hans.
Zlatan Ibrahimovic og skórnir hans. Vísir/Getty
Zlatan Ibrahimovic, sænski landsliðsframherjinn hjá franska stórliðinu Paris Saint-Germain vildi ekki framlengja skósamninginn sinn við Nike en kappinn vill enga smáaura fyrir nýjan skósamning.

Zlatan Ibrahimović er kominn aftur inn á völlinn eftir mánaðarhlé vegna meiðsla og Svíinn öflugi skoraði sigurmark PSG á móti Nice um helgina.

Það vakti hinsvegar ekki síður athygli að Zlatan Ibrahimovic mætti í skóm sem var búið að mála alla svarta og því var ekki hægt að sjá hvaðan þeir komu.

Zlatan vildi ekki framlengja skósamning sinn við Nike en hann hefur verið ein stærsta fótboltastjarna Nike ásamt Cristiano Ronaldo.

„Samingarviðræðurnar fóru út um þúfur fyrir tveimur til þremur vikum síðan. Það er ekkert annað tilboð á borðinu en ég er í miðjum viðræðum," sagði Zlatan Ibrahimovic í viðtali við hollenska fótboltablaðið Voetbal International.

Puma hefur áhuga á að semja við Zlatan Ibrahimovic en hann lék í Puma-skóm á árum áður. Zlatan vill samkvæmt heimildum Aftonbladet í Svíþjóð fá fjögurra ára samning sem gefur honum 390 milljónir íslenskra króna á ári eða um einn og hálfan milljarð á þessum fjórum árum.

Það sést ekki í hvernig skóm Zlatan Ibrahimovic spilar í en hann hefur hinsvegar sést í Adidas-skóm á æfingum með Paris Saint-Germain.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×