Enski boltinn

Brommapojkarna og fleiri lið sýnt Emil áhuga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Emil Atlason í leik gegn FH.
Emil Atlason í leik gegn FH. vísir/daníel
Sænska B-deildarliðið Brommapojkarna er meðal nokkurra atvinnumannaliða sem hafa áhuga á að fá Emil Atlason, leikmann KR, í sínar raðir.

Magni Fannberg er nýr þjálfari Brommapojkarna, en hann hefur stýrt U19 ára liði félagsins undanfarin ár.

„Það eru nokkur lið sem hafa sýnt Emil áhuga og Brommapojkarna er eitt af þeim,“ segir Baldur Stefánsson, varaformaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við Vísi.

KR-ingar hafa fengið tilboð í Emil en þau eru langt frá því að vera þannig að Emil nálgist brottför úr Vesturbænum.

„Ef þú kallar þetta tilboð þá rignir svona tilboðum yfir okkar menn reglulega. Það er oft ansi mikið bil á milli væntinga liðanna sem hafa samband og þess sem við teljum eðlilegt,“ segir Baldur.

„Það hringja oft lið eða senda skeyti með einhverju sem er óraunhæft. Það er langt á milli þess sem við viljum samþykkja og oft fer það saman að ef okkur líkar það ekki þá er það óspennandi fyrir leikmanninn.“

Baldur segir að það kæmi honum ekkert á óvart ef Emil fái tækifæri í atvinnumennsku í vetur.

„Emil er frábær leikmaður sem er með eiginlega sem gera það að verkum að hann getur farið langt. Hann er fljótur, sterkur og einn besti skallamaðurinn í deildinni. Það kæmi mér ekkert stórkostlega á óvart ef Emil fengi áhugavert tilboð í vetur og ef það gerist þá munum við gera allt sem við getum til að hjálpa honum með það,“ segir Baldur Stefánsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×