Innlent

Bjarni Ben: „Þetta er áfall fyrir okkur öll“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Aðalatriði málsins eru þau að það er nú upplýst að sá sem treysti á sanngjarna málsmeðferð í dómsmálaráðuneytinu fékk ekki slíka meðferð. Það var brotið á rétti hans og hefur verið fært réttilega til ábyrgðar á aðstoðarmanninum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í samtali við fréttastofu að þingflokksfundi loknum.

Um reglulegan þingflokksfund sjálfstæðismanna var að ræða en andrúmsloftið var sérstakt í ljósi tíðinda dagsins. Aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, Gísli Freyr Valdórsson, var fyrr í dag dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka upplýsingum um hælisleitanda til fjölmiðla.

Á fundinum lýstu sjálfstæðismenn yfir fullum stuðningi við Hönnu Birnu til að starfa áfram í ríkisstjórn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir gengur út af þingflokksfundi sjálfstæðismanna í dag.vísir/vilhelm
„Staða ráðherrans var rædd og ráðherrann sjálfur vildi gera hreint fyrir sínum dyrum. Það er að segja greina nákvæmlega frá málinu eins og það horfir við henni. Við ræddum það og ræddum um pólitíska ábyrgð. Ráðherrann fékk mikinn stuðning í þingflokknum og hefur minn stuðning alveg óskoraðan til að halda áfram sínum störfum,“ sagði Bjarni.

Aðspurður hvort allir þingmenn Sjálfstæðisflokks hefðu lýst yfir stuðningi við Hönnu Birnu svaraði Bjarni: „Það voru þingmenn sem tóku ekki til máls á fundinum. Við getum orðað það þannig.“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, lýsti yfir því í síðustu viku að hann væri þeirrar skoðunar að Hanna Birna ætti að víkja í ljósi þess að ráðherra bæri hlutlæga ábyrgð á aðstoðarmanni sínum. Í samtali við fréttastofu sagðist hann enn vera þeirrar skoðunar en hann sé þó samþykkur stuðningsyfirlýsingu sjálfstæðismanna.

Bjarni segist vera sammála því að ráðherra beri ábyrgð á pólitískt ráðnum aðstoðarmanni, en hvernig axla eigi ábyrgð sé annað mál. Hanna Birna hafi axlað sína ábyrgð með því að segja sig frá dómsmálunum.   Hvort hún muni taka þau að sér aftur sé ekki ljóst á þessum tímapunkti, það sé mál sem hann og forsætisráðherra þurfi að taka til umræðu.

„Hún var ekki kosin oddviti okkar Sjálfstæðismanna og fyrsti þingmaður Reykjavíkinga af tilviljun. Það er vegna þess að hún er leiðtogi og stjórnmálaskörungur sem að á fullt erindi og þó að þetta mál sé áfall fyrir hana og okkur að þá er ekki tilefni fyrir ráðherrann til annars en að halda ótrauð áfram,“ sagði Bjarni.


Tengdar fréttir

Gísli Freyr bað samstarfsfólkið afsökunar

Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, bað samstarfsfólk sitt í innanríkisráðuneytinu afsökunar á lekanum í morgun.

Gísli Freyr er sáttur við dóminn

Gísli Freyr Valdórsson ætlar að una dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og áfrýjar ekki til Hæstaréttar. Segist hafa fests í lygavef og vítahring.

Svona var atburðarásin í lekamálinu

Gagnvirk tímalína sem sýnir atburðarásina í lekamálinu sem varð til þess að Gísli Freyr Valdórsson var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi.

"Góður maður hengdur“

Margir félagar Gísla Freys Valdórssonar vilja rísa upp honum til varnar og telja dóminn yfir honum þungan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×