Viðskipti innlent

Tökum þátt því við höfum trú á Jan Mayen-svæðinu

Kristján Már Unnarsson skrifar

Olíumálaráðherra Noregs, sem sagður er ætla að búa til íslenskt olíuævintýri, segir að rannsóknir á Jan Mayen-svæðinu verði mun erfiðari en á olíusvæðum Noregs. Þetta kom fram í viðtali við ráðherrann í félagsheimilinu Stapa í Njarðvík, sem nú er einnig Hljómahöllin.



Þar funduðu sjö norrænir ráðherrar atvinnu- orku- og byggðamála en samhliða fór fram norræn ráðstefna um byggðamál í gær og í dag. Meðal ráðherranna var olíu- og orkumálaráðherra Noregs, Tord Lien, sem norskir fjölmiðlar kalla Turbo Tord, eða Túrbó-Þórð.



Í fyrra var hann sagður ætla að opna á meira íslenskt olíuævintýri þegar hann ákvað að norska ríkið, í gegnum ríkisolíufélagið Petoro, skyldi taka fullan þátt í olíuleit með Íslendingum á Drekasvæðinu, þrátt fyrir að nýgerður stjórnarsáttmáli norsku ríkisstjórnarinar mælti fyrir um að Jan Mayen-svæðið skyldi ekki opnað til olíuleitar. 



„Við tókum þátt í þessu því höfum trú á að hér séu möguleikar sem hægt sé að kortleggja,“ segir Tord Lien í viðtali í fréttum Stöðvar 2, en bætir við: „Það er ekkert leyndarmál að sjávarbotninn á hluta af íslenska og norska landgrunninu umhverfis  Jan Mayen er mun erfiðari til rannsóknar en til dæmis landgrunnsbotninn við Noreg.“



Þótt hægriflokkarnir tveir í minnihlutastjórn Ernu Solberg í Noregi styðji báðir olíuleit við Jan Mayen neyddust þeir við stjórnarmyndun í fyrra til að fallast á kröfu tveggja smáflokka, um bann við opnun nýrra olíusvæða, til að tryggja sér stuðning þeirra á Stórþinginu.



-Er bara spurning um tíma hvenær Noregur fer inn á Jan Mayen svæðið?



„Ég vil ekki vera með getgátur um það,“ svarar Tord Lien. „Flokkur minn hefur talið að það eigi að opna Jan Mayen svæðið. Nú er fyrir hendi samstarfssamningur sem gildir til ársins 2017 og ríkisstjórnin fer eftir honum. Þannig er staðan í dag.“

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra stýrði fundi norrænu ráðherranefndarinnar.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×