Körfubolti

Jóhann Árni með brjósklos

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jóhann Árni í leik með Grindavík.
Jóhann Árni í leik með Grindavík. Vísir/Stefán
Jóhann Árni Ólafsson hefur greinst með brjósklos í baki og verður af þeim sökum frá keppni næstu mánuðina.

Þetta er vitanlega gríðarlegt áfall fyrir Grindvíkinga sem hafa verið með lemstraðan hóp í upphafi leiktíðar. Þorleifur Ólafsson er að jafna sig eftir að hafa slitið krossband fyrr á árinu og þá fóru þeir Jón Axel Guðmundsson og Sigurður Þorsteinsson frá liðinu í sumar.

„Ég er með brjósklos auk þess sem taug er klemmd. Það er dágóður tími í að ég geti spilað,“ sagði Jóhann Árni í samtali við Morgunblaðið í dag.

„Ég hafði verið í miklum vandræðum vegna verkja í læri í allt haust og var að leita að skýringum. Ég ætlaði að haltra í gegnum þetta en það varð alls ekki raunin í þetta skiptið.“

Jóhann Árni segir enn fremur ljóst að hann spili ekki meira á þessu ári en gæti komið til baka í janúar eða febrúar. Hann fer þó ekki í aðgerð vegna meiðslanna að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×