Íslenski boltinn

Arnar: Nú fer maður í skotlínuna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Arnar Grétarsson var í dag ráðinn þjálfari Breiðabliks en félagið tilkynnti það nú síðdegis.

Aðeins nokkrum mínútum fyrr birtist viðtal við Arnar hér á Vísi þar sem hann sagði að það væri ekkert fast í hendi hjá honum þó svo að hann teldi Breiðablik spennandi kost.

„Ég var í erfiðri stöðu enda vissi ég að Blikarnir áttu eftir að gefa út fréttatilkynningu,“ sagði Arnar í léttum dúr en hann snýr nú aftur til síns uppeldisfélags.

„Það hefur verið virkilega gaman þegar ég hef verið í Breiðabliki, sérstaklega þegar ég kom til baka úr atvinnumennsku og spilaði undir stjórn Ólafs Kristjánssonar,“ sagði Arnar enn fremur en hann hefur síðustu ár starfað sem yfirmaður knattspyrnumála, fyrst hjá AEK og svo Club Brugge í Belgíu.

„Það var ekki ætlunin að fara heim en þetta helst í hendur við að ég var ekki kominn með neitt annað starf. Ég var þó viss um að ég myndi finna eitthvað á endanum en mig hefur alltaf langað til að prófa þjálfun.“

„Þarna kom tækifæri og því var að hrökkva eða stökkva. Þetta var tilboð sem maður fær ekki á hverju ári.“

Arnar segir að með þessu hafi hann verið að loka á þann möguleika að snúa aftur í starf knattspyrnustjóra hjá erlendu félagi. „Ég er spenntur fyrir því að þjálfa. Þó svo að störfin séu að mörgu leyti svipuð þá er ég núna að fara í skotlínuna. Þetta verður áskorun sem verður gaman að takast á við.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×