Enski boltinn

Giggs finnur til með Raheem Sterling

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling.
Raheem Sterling. Vísir/Getty
Ryan Giggs segist auðveldlega geta sett sig í spor Liverpool-mannsins Raheem Sterling sem hefur kvartað yfir þreytu vegna mikils álags. Sterling byrjaði á bekknum hjá enska landsliðinu á móti Eistlandi í vikunni.

„Raheem er hæfileikaríkur leikmaður en þú verður að fara varlega þegar þú ert ungur leikmaður. Ferillinn er stuttur og menn verða að hugsa um framtíðina," sagði Ryan Giggs við Sky Sports.

Ryan Giggs er hættur að spila en hann er nú aðstoðarmaður Louis Van Gaal, knattspyrnustjóra Manchester United. Giggs hóf ferillinn hjá United þegar hann var 17 ára og lauk honum fertugur.

„Þetta getur verið erfitt þegar þú ert ungur leikmaður. Hann er leikmaður með mikinn sprengikraft og þetta er mjög spennandi og skemmtilegur leikmaður. Fólk vill því borga fyrir að sjá hann spila," sagði Giggs.

„Því miður er hann hjá erkifjendum okkar í Liverpool," sagði Giggs sem man vel eftir því þegar hann var á sama aldri.

„Ég vildi æfa á hverjum degi og spila hvern einasta leik. Ég efast ekki um að honum líði eins," sagði Giggs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×